Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hafði beitt Pence þrýstingi og beðið hann um að tefja formlega afgreiðslu, en Pence hefur verið mjög hliðhollur forsetanum í embættistíð hans. Á fundi þinganna í dag, áður en þingmenn áttu að afgreiða kjör Biden með formlegum hætti, gerði Pence grein fyrir afstöðu sinni og sagðist ekki geta hindrað framgang lýðræðisins.
— Mike Pence (@Mike_Pence) January 6, 2021
„Samkvæmt minni dómgreind kemur sá eiður sem ég sór að stjórnarskránni í veg fyrir að ég taki mér það vald að ákveða hvaða atkvæði skulu talin og hver ekki,“ sagði Pence í yfirlýsingu sinni.
Fundurinn var þó truflaður þegar múgur réðst inn í þinghúsið, en þar voru á ferð stuðningsmenn Donald Trump. „Þú sórst eið,“ og „stöðvið þjófnaðinn,“ heyrðist kallað, með vísan til þess að úrslitum forsetakosninganna í nóvember hafi verið „stolið“ líkt og Trump hefur ítrekað haldið fram.
Þessi yfirlýsing Pence féll ekki í kramið hjá Bandaríkjaforseta sem sakaði hann um heigulshátt.
„Mike Pence hafði ekki hugrekki til þess að gera það sem var nauðsynlegt til að vernda land okkar og stjórnarskrá, að gefa ríkjum tækifæri til þess að staðfesta leiðréttar staðreyndir, ekki þær fölsku og röngu sem upphaflega átti að staðfesta,“ skrifaði hann og vísaði enn og aftur í meint kosningasvindl.
Mike Pence didn’t have the courage to do what should have been done to protect our Country and our Constitution, giving States a chance to certify a corrected set of facts, not the fraudulent or inaccurate ones which they were asked to previously certify. USA demands the truth!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) January 6, 2021