Erlent

Lög­reglu­maður lést af sárum sínum eftir á­rásina á þing­húsið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Óeirðaseggirnir sóttu að þingsalnum þegar þeir voru komnir inn í húsið og lögregla innandyra var tilneydd til að grípa til vopna.
Óeirðaseggirnir sóttu að þingsalnum þegar þeir voru komnir inn í húsið og lögregla innandyra var tilneydd til að grípa til vopna. AP/Andrew Harnik

Lögreglumaður sem starfaði í þinghúsi Bandaríkjanna, Capitol Hill, er látinn. Hann lést af sárum sem hann hlaut þegar æstur múgur réðst inn í þinghúsið síðastliðinn miðvikudag og truflaði þingfund þar sem átti að staðfesta kjör Joes Biden í embætti forseta Bandaríkjanna.

Áður hefur verið greint frá því að fjórir mótmælendur hafi látist í óeirðunum við þinghúsið, þar á meðal ein kona sem lögregla skaut til bana þegar fólkið var að brjóta sér leið inn í húsið. Þá særðist fjöldi fólks í áhlaupinu.

Viðbúnaður og viðbrögð lögreglunnar í þinghúsinu hafa vakið furðu enda var viðbúnaðurinn í engu samræmi við þann mikla fjölda mótmælenda sem safnaðist saman fyrir framan þinghúsið.

Þá hafa birst myndskeið sem sýna lögreglumenn hleypa mótmælendum inn fyrir varnargirðingu sem komið hafði verið upp.

Yfirmaður löggæslumála í þinghúsinu, Steven Sund, sagði af sér í gær vegna viðbragða lögreglu við áhlaupinu.

Í yfirlýsingu sem lögreglan í þinghúsinu sendi frá sér í nótt segir að lögreglumaðurinn hafi heitið Brian Sicknick.

„Sicknick var að bregðast við óeirðunum á miðvikudag við þinghúsið og særðist í líkamlegum átökum við mótmælendur,“ sagði í yfirlýsingunni.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, mætti aftur á Twitter í nótt eftir að aðgangi hans að miðlinum var lokað tímabundið vegna skilaboða sem hann lét frá sér þegar óeirðirnar stóðu sem hæst.

Í myndbandi sem hann birti á Twitter ávarpar hann bandarísku þjóðina og fordæmir árásina á þinghúsið. Þá heitir hann friðsælum valdaskiptum þegar Biden tekur við embætti 20. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×