Körfubolti

Möguleiki á að færa bikarkeppnina ef KKÍ lendir í vanda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Keppni í Domino's deild kvenna hefst á ný á miðvikudaginn.
Keppni í Domino's deild kvenna hefst á ný á miðvikudaginn. vísir/vilhelm

Körfuknattleikssamband Íslands er undir það búið að gera þurfi hlé á Íslandsmótinu í körfubolta sem hefst aftur í þessari viku. Meðal aðgerða sem hægt er að grípa til að færa bikarkeppnina.

Snorri Örn Arnaldsson, mótastjóri KKÍ, var gestur þeirra Kjartans Atla Kjartanssonar og Ríkharps Óskars Guðnasonar í Sportinu í dag. Þar ræddi hann um það vandasama verkefni að raða Íslandsmótinu upp á nýtt. Keppni á Íslandsmótinu var hætt í byrjun október, skömmu eftir að mótið hófst, vegna kórónuveirufaraldursins.

Keppnisbanni í íþróttum á Íslandi verður aflétt á miðvikudaginn og þá hefst Íslandsmótið í körfubolta að nýju. Í reglugerð KKÍ segir að fresturinn til að ljúka keppni í efstu tveimur deildum karla og kvenna sé út apríl og í úrslitakeppninni út júní.

Leikið verður afar þétt á næstu vikum og ef allt gengur eftir verður aðeins um fjögurra vikna lenging á tímabilinu frá því sem venjulegt er.

„Við viljum ekki taka allt það svigrúm sem við eigum í dag. Ef við grípum eitthvað svigrúm og það kemur stopp erum við í djúpum vanda með mótið,“ sagði Snorri.

Bikarkeppnin á að fara fram eftir að deildarkeppninni lýkur og áður en úrslitakeppnin hefst. Það er hins vegar möguleiki á að færa bikarkeppnina ef eitthvað kemur upp á.

„Við höfum svigrúm og erum með bikarinn í lok apríl. Það er enn möguleiki á að færa hann til ef við lendum í miklum vanda eða ef það eru miklar frestanir,“ sagði Snorri.

Fyrstu leikirnir á Íslandsmótinu eftir hléið langa fara fram á miðvikudaginn. Þá fer fram heil umferð í Domino's deild kvenna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×