Sjávarútvegur er langmikilvægasta atvinnugrein Grænlendinga og nemur hlutfall hans í útflutningstekjum landsins yfir níutíu prósentum. En ólíkt Íslendingum velja Grænlendingar þá leið að heimila öðrum ríkjum að veiða hluta fiskaflans en gegn greiðslu.

Grænlendingar fá 140,6 milljónir danskra króna, andvirði þriggja milljarða króna íslenskra, í árlegar greiðslur fyrir leigu fiskveiðiheimilda til Evrópusambandsins, samkvæmt samningnum, sem undirritaður var á föstudag, en fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Tekjurnar fara síðan hækkandi eftir tvö ár en samningurinn gildir til ársins 2026. Kemur hann í framhaldi af eldri samningi frá árinu 2007 sem skilaði 125 milljónum danskra króna árlega. Hluti af greiðslunum er skilgreindur sem þróunarstyrkur til sjávarútvegs á Grænlandi.

Í fréttatilkynningu grænlenskra stjórnvalda og fréttum þarlendra fjölmiðla fagnar Jens Immanuelsen, sjávarútvegráðherra Grænlands, samningnum. Honum er lýst sem þýðingarmiklum fyrir Grænland. Hann tryggi landinu hærri tekjur en áður en fyrir minni fiskveiðiheimildir. Eftir því er tekið að bæði samtök atvinnulífsins á Grænlandi sem og samtök sjómanna og veiðimanna fagna samningnum.
Kvótaleigan nær til sjö fisktegunda; þorsks, karfa, grálúðu, rækju, loðnu, makríls og langhala, en jafnframt er sérstakur aukakvóti fyrir meðafla. Þorskkvótinn er sá eini sem er aukinn, úr 1.800 tonnum upp í 1.950 tonn, en hinir minnka flestir. Tekið er fram að kvótar og greiðslur taki breytingum í samræmi við veiðiráðgjöf fiskifræðinga.

Innan Evrópusambandsins deilast fiskveiðikvótarnir einkum til þriggja landa; Danmerkur, Frakklands og Þýskalands. Dótturfélag Samherja í Þýskalandi, Deutsche Fischfang Union, er meðal þriggja þýskra útgerðarfélaga sem nýtt hafa fiskveiðiheimildirnar. Tveir af togurum félagsins hafa sinnt veiðunum og hafa þeir að hluta verið mannaðir íslenskum skipstjórnarmönnum, samkvæmt upplýsingum frá Samherja.
Grænlendingar leyfa einnig útlendingum að eiga allt að þriðjung í grænlenskum útgerðum. Þannig hafa þrjú íslensk fyrirtæki, Brim, Ísfélag Vestmannaeyja og Síldarvinnslan, haft aðgang að grænlenskum fiskimiðum í gegnum fjárfestingu í þarlendum sjávarútvegi.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá beina útsendingu Stöðvar 2 frá höfninni í Nuuk fyrir fjórum árum: