Lífið

Lady Gaga og Jennifer Lopez syngja fyrir Biden

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Lady Gaga fær það hlutverk að syngja þjóðsönginn við athöfnina.
Lady Gaga fær það hlutverk að syngja þjóðsönginn við athöfnina. AP/Andrew Harnik

Tónlistar- og leikkonurnar Lady Gaga og Jennifer Lopez munu syngja við innsetningarathöfn Joes Biden þegar hann tekur við embætti Bandaríkjaforseta eftir viku. Frá þessu sagði nefndin sem sér um athöfnina í dag.

Samhliða undirbúningi athafnarinnar hefur teymi forsetans tilvonandi framleitt níutíu mínútna sjónvarpsþátt, í umsjón leikarans Toms Hanks, þar sem meðal annars Demi Lovato, Justin Timberlake og Jon Bon Jovi munu koma fram.

Bandaríkjamönnum hefur verið ráðlagt að mæta ekki á innsetningarathöfnina, eins og þúsundir hafa gjarnan gert í gegnum tíðina. Er það bæði vegna kórónuveirufaraldursins og í kjölfar árásar stuðningsmanna Donalds Trump forseta á þinghúsið í síðustu viku.

Öryggisgæsla hefur verið stórhert í kjölfar árásarinnar og er útlit fyrir að fleiri úr þjóðvarðliði Bandaríkjanna verði á athöfninni nú en við síðustu tvær innsetningarathafnir samanlagt.

Sjálfur ætlar Trump ekki að mæta á athöfnina og er það í fyrsta sinn sem lifandi forseti hundsar innsetningarathöfn eftirmanns síns í hálfa aðra öld. Allir fyrrverandi forsetar utan hins 96 ára Jimmys Carter hafa boðað komu sína, sem og Mike Pence, fráfarandi varaforseti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Viðburðir

Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.