Samhliða undirbúningi athafnarinnar hefur teymi forsetans tilvonandi framleitt níutíu mínútna sjónvarpsþátt, í umsjón leikarans Toms Hanks, þar sem meðal annars Demi Lovato, Justin Timberlake og Jon Bon Jovi munu koma fram.
Bandaríkjamönnum hefur verið ráðlagt að mæta ekki á innsetningarathöfnina, eins og þúsundir hafa gjarnan gert í gegnum tíðina. Er það bæði vegna kórónuveirufaraldursins og í kjölfar árásar stuðningsmanna Donalds Trump forseta á þinghúsið í síðustu viku.
Öryggisgæsla hefur verið stórhert í kjölfar árásarinnar og er útlit fyrir að fleiri úr þjóðvarðliði Bandaríkjanna verði á athöfninni nú en við síðustu tvær innsetningarathafnir samanlagt.
Sjálfur ætlar Trump ekki að mæta á athöfnina og er það í fyrsta sinn sem lifandi forseti hundsar innsetningarathöfn eftirmanns síns í hálfa aðra öld. Allir fyrrverandi forsetar utan hins 96 ára Jimmys Carter hafa boðað komu sína, sem og Mike Pence, fráfarandi varaforseti.