Skoðun

Lestrar­keppni grunn­skólanna 2021

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir skrifar

Íslendingum þykir vænt um tungumálið og vilja leggja sitt af mörkum til varðveislu þess. Það sést á framlagi landsmanna til söfnunar radda í gegnum vefinn Samrómur.is, sem Almannarómur og Háskólinn í Reykjavík standa að í sameiningu. Nú þegar hafa um 12 þúsund einstaklingar lesið rúmlega 27 þúsund mínútur, eða tæplega 319 þúsund setningar, inn á Samróm.

Raddgagnasafnið Samrómur verður notað til þjálfunar máltæknihugbúnaðar fyrir íslensku, enda veltur framtíð tungumálsins á að við getum notað það í stafrænum heimi. Þróun máltækni fyrir íslensku er samstarfsverkefni fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og íslensku þjóðarinnar og hefur það lokamarkmið að íslenskur almenningur geti notað móðurmálið í samskiptum við fyrirtæki og stofnanir, tölvur og tæki.

Raddstýring tölva og snjalltækja er orðinn sjálfsagður hluti af daglegu lífi okkar, enda er talað mál eðlilegasti samskiptamáti mannsins. Sá böggull fylgir hins vegar skammrifi að ekki er hægt, enn sem komið er, að eiga samskipti við tölvur og tæki með því að tala íslensku. Samskipti við og í gegnum tæki fara því fram á erlendum málum. Ef tungumál er ekki notað á stórum sviðum daglegs lífs deyr það en talið er að helmingur þeirra 6.700 tungumála sem töluð eru í heiminum í dag verði útdauð fyrir næstu aldamót.

Raddir barna og ungmenna hafa annað tíðnisvið en raddir fullorðinna og því er brýnt að leggja sérstaka áherslu á söfnun radda þess hóps. Án radda barna og ungmenna munu þau ekki geta notað tæki á íslensku, tækin munu ekki skilja raddskipanir og samræður þess aldurshóps. Aðkoma barna og ungmenna að því verkefni er gríðarlega mikilvægt, þau hafa framtíð íslenskunnar bókstaflega í hendi sér.

Mánudaginn 18. janúar fer Lestrarkeppni grunnskólanna 2021 af stað. Í keppninni munu nemendur allra grunnskóla landsins keppast við að lesa sem flestar setningar inn á Samróm.is. Keppt er þremur stærðarflokkum og eru vegleg verðlaun í boði fyrir þá skóla sem lesa mest. Að tryggja framtíð íslenskunnar er eitt stærsta samstarfsverkefni þjóðarinnar.Gefum íslenskunni nokkrar mínútur. Þannig sjáum við til þess að tungumálið eigi framhaldslíf í stafrænum heimi.

Höfundur er framkvæmdastjóri Almannaróms – Miðstöðvar um máltækni.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×