Erlent

Loka á flug vegna brasilíska afbrigðisins

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ættingi sjúklings í Manaus biður til guðs. Ekkert hefur hægst á fjölgun smitaðra í Brasilíu.
Ættingi sjúklings í Manaus biður til guðs. Ekkert hefur hægst á fjölgun smitaðra í Brasilíu. AP/Edmar Barros

Bretlandsstjórn bannaði í dag komur ferðamanna frá Suður-Ameríku vegna nýs, brasilísks afbrigðis kórónuveirunnar.

Auk Suður-Ameríku var tekið fyrir komur ferðamanna frá Panama, Portúgal og Grænhöfðaeyjum vegna afbrigðisins. Grant Shapps, samgönguráðherra Bretlands, sagði í dag að þótt til séu mörg þúsund afbrigði kórónuveirunnar séu þau ekki öll jafnhættuleg.

„Þetta afbrigði, líkt og það sem við sáum í Kent og í Suður-Afríku, vekur nógar áhyggjur hjá okkur til að við tökum þetta skref í varúðarskyni,“ sagði Shapps.

Vísaði hann þarna einnig til breska afbrigðisins, sem hefur náð töluverðri útbreiðslu, og þess suðurafríska en þau eru sögð meira smitandi en önnur. 

Afbrigðin þrjú eiga það öll sameiginlegt að stökkbreytingar hafa orðið á svokölluðu bindipróteini veirunnar. Próteinið er sá hluti sem veiran notast til að bindast frumum í mönnum.

Ekkert virðist hægjast á fjölgun smitaðra í Brasilíu en rúmlega sextíu þúsund tilfelli greindust í gær. Rúmar átta milljónir hafa smitast frá upphafi faraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×