Erlent

Ferða­menn þurfa að sýna fram á nei­kvætt co­vid-próf áður en þeir fara til Bret­lands

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Boris Johnson kynnti í dag hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins á Bretlandi.
Boris Johnson kynnti í dag hertar aðgerðir á landamærum vegna kórónuveirufaraldursins á Bretlandi. Getty/Heathcliff O'Malley

Bretlandsstjórn ákvað í dag að skylda ferðamenn frá öllum ríkjum í skimun. Koma ferðamanna frá Suður-Ameríku var hins vegar bönnuð vegna nýs brasilísks afbrigðis kórónuveirunnar.

Ferðamenn sem koma til landsins munu þurfa að sýna fram á neikvæðar niðurstöður úr Covid prófi áður en þeir leggja af stað til landsins. Reglurnar munu gilda til 15. febrúar hið minnsta og taka gildi klukkan 4 á aðfaranótt mánudags. Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Auk Suður-Ameríku er tekið fyrir komur ferðamanna frá Panama, Portúgal og Grænhöfðaeyjum vegna nýja afbrigðisins.

Í gær greindust tæplega 56 þúsund Bretar smitaðir af veirunni og daginn þar áður greindust tæplega 49 þúsund Bretar. Þá hafa nú 87.291 látist af völdum veirunnar þar í landi.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði á blaðamannafundi í dag að nauðsynlegt væri að grípa til harðra aðgerða vegna ástandsins í landinu. Hann sagði að mikil hætta væri á að ný afbrigði veirunnar dreifðust á Bretlandi og þyrfti því að grípa til frekari aðgerða nú þegar bólusetningar eru í gangi.

Reglurnar eru í gildi á öllu Bretlandi. Þeir sem koma til landsins frá komandi mánudegi munu þurfa að vera í sóttkví í tíu daga, nema þeir fái neikvæðar niðurstöður úr skimun á fimmta degi.


Tengdar fréttir

Brasilískt afbrigði veirunnar veldur auknum áhyggjum

Yfirvöld í Bretlandi hafa auknar áhyggjur af nýju afbrigði kórónuveirunnar sem á uppruna sinn í Brasilíu og virðist vera meira smitandi en það sem kom faraldrinum af stað, líkt og tvö önnur afbrigði sem hafa greinst og eru rakin annars vegar til Bretlands og Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×