Erlent

Fleiri bólu­settir fyrir veirunni en hafa smitast á Bret­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nú hafa 3,5 milljónir Breta fengið fyrsta skammtinn af bóluefni gegn Covid-19.
Nú hafa 3,5 milljónir Breta fengið fyrsta skammtinn af bóluefni gegn Covid-19. Getty/Leon Neal

Fleiri hafa nú verið bólusettir fyrir kórónuveirunni en hafa greinst smitaðir á Bretlandi. Nú hafa meira en 3,5 milljónir Breta fengið fyrsta skammt bólusetningarinnar við veirunni og þegar hafa 447 þúsund fengið báða skammta. Hingað til hafa 3,3 milljónir manna greinst smitaðir af veirunni á Bretlandi.

Í gær greindust 41.246 smitaðir af veirunni og 1.295 létust af völdum veirunnar þann dag. Undanfarið hefur kórónuveirufaraldurinn herjað hart á Bretlandseyjar. Breska afbrigðið, sem greindist fyrst í desember, hefur smitast hratt á milli manna og hafa stjórnvöld gripið til harðra sóttvarnaaðgerða.

Stjórnvöld kynntu til að mynda í gær að allir ferðamenn sem kæmu til landsins þyrftu að fara í sóttkví í tíu daga frá komandi mánudegi eða fara í tvöfalda skimun og sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf áður en þeir legðu af stað til landsins.

Enginn frá Suður-Ameríku, Portúgal og Grænhöfðaeyjum getur ferðat til Bretlands vegna tveggja nýrra brasilískra afbrigða veirunnar sem virðist mjög skætt. Átta tilfelli annars þessara afbrigða hafa þegar greinst á Bretlandi en sérfræðingar hafa varað við því að hitt sé líklega þegar farið að smitast í samfélaginu. Það hefur þó ekki greinst hingað til.

Talið er að seinna afbrigðið dreifist hraðar og auðveldar en önnur og að það geti jafnvel smitað þá sem þegar hafa fengið Covid-19 aftur. Það hefur þó ekki fengist staðfest.


Tengdar fréttir

Breska af­brigðið verði orðið ráðandi í mars

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna, CDC, varar nú við því að afbrigði kórónuveirunnar sem talið er meira smitandi en flest önnur, og var fyrst uppgötvað í Bretlandi, verði orðið ráðandi afbrigði veirunnar í Bandaríkjunum fyrir marsmánuð.

Tvær milljónir manna hafa látist af völdum veirunnar

Meira en tvær milljónir manna hafa látist af völdum kórónuveirunnar. 93,4 milljónir hafa greinst smitaðir af veirunni á heimsvísu og flestir í Bandaríkjunum, þar sem tæpar 24 milljónir hafa greinst og 405 þúsund látist af völdum veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×