Viðskipti innlent

Gáfust upp á biðinni eftir ferða­mönnum

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldsmiðjan á Bragagötu var alls starfrækt í 34 ár.
Eldsmiðjan á Bragagötu var alls starfrækt í 34 ár. Já.is

Veitingastaðnum Eldsmiðjunni á Bragagötu í Reykjavík hefur verið lokað fyrir fullt og allt. Lauk þar með sögu eins elsta pítsustaðar landsins. Á síðasta ári fækkaði stöðum Eldsmiðjunnar úr fjórum í einn.

Útibúið á Bragagötu 38A opnaði árið 1986 og var fyrsti staðurinn til að selja pítsur undir merkjum Eldsmiðjunnar. Í kjölfarið opnaði Eldsmiðjan staði á Laugavegi, í Kópavogi og við Suðurlandsbraut. Eldsmiðjan er í eigu veitingahúsakeðjunnar Gleðipinna.

Greint var frá því á vef Fréttablaðsins í sumar að Eldsmiðjan á Laugavegi hafi hætt rekstri og staðnum á Bragagötu verið lokað tímabundið. Fyrr á árinu lokaði Eldsmiðjan á Dalvegi í Kópavogi dyrum sínum.

Haft var eftir Jóhanni Erni Þórarinssyni, eins eiganda Gleðipinna í frétt Fréttablaðsins að ástæðan fyrir lokun staðanna í miðbæ Reykjavíkur mætti rekja til áhrifa heimsfaraldursins. Báðir hafi að miklu leyti þrifist á ferðaþjónustunni og vonuðust eigendur til að geta opnað aftur á Bragagötunni þegar erlendir ferðamenn létu sjá sig á ný.

Ekki náðist í Jóhann eða Jóhannes Ásbjörnsson, annars eigenda Gleðipinna, við vinnslu þessarar fréttar en veitingahúsnæðið sem hýsti Eldsmiðjuna á Bragagötu var sett á sölu í nóvember auk eldofns og allra innanstokksmuna. 

Ætti það því að vera tiltölulega auðvelt fyrir áhugasama að taka upp þráðinn og hefja á ný flatbökugerð á þessum rómaða stað í miðbæ Reykjavíkur.


Tengdar fréttir

FoodCo og Gleðipinnar sameinast

Með samruna veitingafyrirtækjanna FoodCo og Gleðipinna verður lögð meiri áhersla á gæði og hlúð betur að sérkennum og kjarna staðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×