„Leikurinn er bara gríðarleg vonbrigði. Þetta var eitt af stóru prófunum sem liðið var að fara í og við kolféllum á prófinu, því miður. Við áttum alveg möguleika, vorum alveg inn í þessu en því miður náðum við ekki að sigla þessu í höfn og virkilega fúlt tap staðreynd,“ sagði Ásgeir Örn um leikinn gegn Sviss.
Sjá má viðtalið við Ásgeir Örn í heild sinni í spilaranum hér neðst í fréttinni.
Oft á tíðum pínlegt að horfa á þetta
„Sóknarleikurinn var bara hörmung, það er ekkert hægt að lýsa honum neitt öðruvísi heldur en það. Var oft á tíðum pínlegt að horfa á þetta. Allt við það hvernig við ætluðum að skora þessi mörk var gjörsamlega í molum.“
„Fáum næstum engin hraðaupphlaup í leiknum. Erum ofboðslega lengi að koma okkur fram völlinn og nýta þennan hraða sem við höfum. Svo þegar við erum í stöðusóknum eigum við í miklum vandræðum að skapa okkur pláss og færi. Þegar það svo gerist þá klikkum við á dauðafærunum!“
„Ég sá bara því miður nánast enga ljósa punkta í sóknarleiknum.“
Hvað gerist?
„Það er eitthvað sem er ekki að fúnkera þarna inn á vellinum, það er greinilegt. Fyrsta lagi er þetta þannig að þeir eru mjög hægir, þeir losa boltann illa, engir leikmenn sem taka frumkvæði finnst mér. Svo er þetta hugmyndasnautt og fyrirsjáanlegt.“