Í nótt féll snjóflóð um vegin Eyrarhlíð, milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Vegurinn var opinn með óvissustigi vegna snjóflóðahættu en var lokað í kjölfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofunni.
Dregið hefur úr veðrinu frá því í gærkvöldi og minni úrkoma mælist á flestum sjálfvirkum úrkomumælum en gengur á með dimmum éljum og skafrenningi. Norðanveðrið hefur staðið yfir í viku en spár gera ráð fyrir að heldur eigi að lægja í dag og draga úr úrkomu.
Áhöfnin á varðskipinu Tý var kölluð út á tíunda tímanum í gær til að annast sjúkraflutning á Siglufirði. Þar þurfti maður að komast undir læknishendur á Akureyri og ekki unnt að flytja hann landleiðina né með sjúkraflugi vegna slæms veðurs og ófærðar.
Varðskipið hefur verið til taks á Norðurlandi vegna snjóflóðahættu og slæms veðurs undanfarna daga. Varðskipið Þór verður til taks í Önundafirði vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum.
Björgunarsveitarmenn frá Þórshöfn, Raufarhöfn, Húsavík auk snjómokstursmanna allt frá Þórshöfn til Akureyrar unnu saman að því að fylgja sjúkrabíl frá Þórshöfn til Akureyrar í vondu verði og mikilli ófærð.