Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var vægast sagt ósáttur í viðtali við RÚV eftir tapleikinn gegn Frakklandi á dögunum. Þar lét hann sérfræðinga RÚV fá það óþvegið. Var þetta rætt í HM stofu dagsins fyrir leik Íslands og Noregs.
„Algjörlega óþolandi að heyra hvernig sérfræðingar RÚV eru að tjá sig um þetta … þetta eru niðrandi ummæli og hefur farið illa í hópinn og mig,“ sagði Guðmundur til að mynda í eldfimi viðtali eftir leik.
Sérfræðingar RÚV eru Logi Geirsson – fyrrum landsliðs- og atvinnumaður í handbolta – og Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins.
„Mér var brugðið að sjá landsliðsþjálfarann í þessum ham eftir leikinn. Verð að segja eins og er, mér finnst leiðinlegt að koma hérna í aðra HM stofu í röð og þurfa í raun og veru að verja skoðanir og væntingar til liðsins fyrir landsliðsþjálfaranum og þurfa að hlusta á þetta. Við erum ekki hafnir yfir gagnrýni – eins og ég kom inn á í síðasta þætti – við höfum skoðanir á því sem er verið að gera og það er í lagi gagnrýna það,“ sagði Arnar og hélt áfram.
„Við höfum þó reynt að vera minnsta kosti kurteisir, við höfum reynt að vera jákvæðir og við höfum eftir hvern einasta leik hrósað því sem vel er gert. Meira að segja það mikið að í sumum tilfellum höfum við verið skammaðir, til að mynda eftir leikina gegn Marokkó og Alsír. Eftir leikinn gegn Sviss vorum við – eins og aðrir – ekki sáttur við spilamennsku liðsins og gagnrýndum spilamennskuna. Held að það hafi verið fyllilega verðskuldað. Ég er hissa á Gumma, ég er hissa á þessum viðbrögðum og finnst það í raun og veru sorglegt. Fyrir handboltann, fyrir allt það jákvæða sem er í gangi – umfjöllun og annað – þá finnst mér þetta vera sorglegt,“ sagði Arnar um viðbrögð Guðmundar landsliðsþjálfara.
„Hann mætir náttúrulega strax eftir tapleik í engu jafnvægi og lætur allt gossa. Svo það sé alveg á hreinu þá vita allir heilvita menn að leik íslenska liðsins er ekki stjórnað héðan af okkur úr sjónvarpsal. Það er svo margt sem passar ekki í þessu. Þetta er bara þannig að staðreyndir og rök halda en ekki tilfinningar,“ bætti Logi við að lokum.
Ísland mætir Noregi í síðasta leik liðsins á HM í handbolta sem fram fer í Egyptalandi. Hefst leikurinn nú klukkan 17.00.