Erlent

Ó­eirðir í Hollandi vegna sótt­varna­að­gerða

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Kveikt var í bílum og reiðhjólum í mótmælunum í Eindhoven í gær.
Kveikt var í bílum og reiðhjólum í mótmælunum í Eindhoven í gær. Getty/Nik Oiko

Óeirðalögregla var kölluð út í Eindhoven í Hollandi í gærkvöldi vegna mótmælenda sem hópuðust á götur borgarinnar til að mótmæla nýju útgöngubanni í borginni sem tók gildi í gærkvöldi vegna útbreiðslu Covid-19 á svæðinu.

Lögreglumenn beittu öflugum vatnsbyssum og táragasi gegn mannfjöldanum og rúmlega hundrað voru handteknir. Mótmælendurnir köstuðu sumir hverjir flugeldum í átt að lögreglu, brutust inn í verslanir og brutu rúður.

Einnig kom til átaka í höfuðborginni Amsterdam en lætin voru þó ekki eins mikil og í Eindhoven. Þá var einnig kveikt í skimunarmiðstöð fyrir Covid-19 á laugardag í Hollandi, í smábænum Urk og hefur heilbrigðisráðherra Hollands fordæmt aðfarirnar.

Krár og veitingastaðir hafa verið lokaðir í Hollandi frá því í október og skólum og verslunum sem ekki selja nauðsynjavöru var lokað í síðasta mánuði. Þá hefur öllum flugferðum til og Bretlandi, Suður-Afríku og Suður-Ameríku verið aflýst um óákveðinn tíma af ótta við að ný afbrigði veirunnar berist til landsins.

Frá upphafi faraldurs hafa um 944 þúsund manns greinst með kórónuveiruna í Hollandi og dauðsföll eru tæplega 13.500.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×