Faraldurinn var í miklum vexti í Bretlandi í upphafi árs, en undanfarna daga hafa færri smit verið að greinast. Rúmlega 22 þúsund greindust með veiruna þar í landi í gær og hefur talan ekki verið lægri frá því um miðjan desember. Um 60 þúsund smit greindust daglega þegar staðan var hvað verst í byrjun janúar.
37 þúsund liggja á sjúkrahúsi með veiruna og hafa aldrei verið fleiri í öndunarvél frá því að faraldurinn hófst að sögn Hancock, eða alls 4.076. Breska afbrigði veirunnar setti strik í reikninginn, enda dreifðist það hratt um Lundúnaborg og suðausturhluta landsins. Álagið á heilbrigðisstofnanir landsins er því enn gífurlega mikið.
Bólusetningar hófust í Bretlandi þann 8. desember síðastliðinn og segir ráðherrann um áttatíu prósent landsmanna yfir áttrætt hafa fengið bólusetningu. Hann skilur að fólk sé orðið langþreytt og vilji fara að horfa til tilslakana. Hann geti þó engu lofað í þeim efnum.
„Við verðum að horfa á þær staðreyndir sem eru fyrir hendi og við verðum að fylgjast vel með stöðunni,“ segir Hancock.
Við mat á því hvort slaka eigi á aðgerðum horfir ríkisstjórnin til dánartíðni, fjölda fólks á sjúkrahúsum landsins, hvort það séu ný afbrigði veirunnar í umferð og hvernig bólusetningar ganga.
„Auðvitað vilja allir fá einhverja tímalínu, en ég held að flestir skilji hvers vegna það er erfitt því það fer allt eftir stöðunni hverju sinni.“