Handbolti

Pöntuð pizza olli matareitrun Slóvena

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Danir ætla ekki að gera sömu mistök og Slóvenar og panta pizzu frá utanaðkomandi veitingastað.
Danir ætla ekki að gera sömu mistök og Slóvenar og panta pizzu frá utanaðkomandi veitingastað. epa/Mohamed Abd El Ghany

Svo virðist sem slóvenska handboltalandsliðið hafi pantað sér pizzu daginn fyrir leikinn gegn Egyptalandi á HM og að hún hafi valdið matareitrun í herbúðum liðsins.

Tólf leikmenn Slóveníu fengu matareitrun á laugardaginn, daginn fyrir úrslitaleik gegn Egyptalandi um sæti í átta liða úrslitum HM.

Slóvenar fóru mikinn í gær og sökuðu Egypta um að hafa eitrað fyrir sér. Þeim fannst grunsamlegt að allt hafi verið í himnalagi á hótelinu þar til fyrir leikinn gegn heimaliðinu.

Íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins, Morten Henriksen, gefur ekki mikið fyrir þessar ásakanir Slóvena og segir að þeir hafi pantað sér pizzu frá veitingastað á laugardaginn og segist hafa myndir því til sönnunar.

„Þetta er hálf broslegt þegar okkur hefur verið sagt, og höfum myndir af því, að Slóvenar hafi pantað pizzu frá veitingastað utan hótelsins,“ sagði Henriksen. 

Hann sagði ennfremur að Slóvenar hafi ekki bara farið óvarlega þegar þeir pöntuðu pizzuna heldur hafi þeir, eins og leikmenn annarra liða, borðað full mikið af ósoðnu grænmeti á mótinu.

Magakveisa hefur einnig herjað á lið Dana og Mikkel Hansen og Johan Hansen misstu til dæmis af leiknum gegn Japan af þeim sökum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×