Eftir að Keflvíkingar skoruðu undir lok 1. leikhluta spilaði plötusnúðurinn lag með Herra hnetusmjöri.
Hann var þó ekkert að flýta sér að slökkva á laginu sem var enn í gangi þegar Grindvíkingar voru komnir í sókn.
Sigmundur Már Herbertsson stöðvaði þá leikinn og bað plötusnúðinn vinsamlegast um að lækka í græjunum sem hann og gerði.
„Málið er að Simmi er AC/DC gæi, hann fílar ekki svona íslenskt rapp. Hann var bara að biðja hann um að skipta um lag,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson í léttum dúr í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.
Keflavík sigraði Grindavík, 94-67, og hefur unnið alla fimm leiki sína í Domino's deildinni og er á toppi hennar. Á föstudaginn mæta Keflvíkingar Stjörnumönnum í stórleik í Garðabænum.

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.