Guðni Heiðar Guðnason faðir mannsins sem lést á gjörgæsludeild Landspítalans á fimmtudag eftir að hafa legið á botni innilaugar Sundhallarinnar í Reykjavík sagðist í fréttum í gær hafa margar spurningar um andlát hans.

Sonur sinn hafi verið líkamlega hraustur, hann hafi verið á sundi, þegar hann fálmaði upp í loft og sökk til botns og lá þar í nokkrar mínútur samkvæmt upplýsingum s em hann hafi fengið. Hann velti enn fremur fyrir sér hvort ekki hafi verið kerfi í sundlauginni sendir frá sér viðvörun ef eitthvað er hreyfingarlaust á botni laugarinnar í 15 sekúndur eða lengur.
„Sundlaugin er nýlega uppgerð. Ég spyr var þetta kerfi ekki sett upp. Virkaði það ekki, af hverju virkaði það ekki, hvernig er eftirliti háttað með þessu kerfi. Hefði kerfið verið virkt eða virkað hefði ef til vill mátt bjarga lífi hans,“ segir Guðni Heiðar.
Norska fyrirtækið Swimeye auglýsir á heimasíðu sinni að það hafi sett upp slíkan búnað í innilaug Sundhallar Reykjavíkur árið 2018. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er þetta eina sundlaug Reykjavíkurborgar sem er með slíkan búnað en samkvæmt sömu heimildum er ekki skylda að hafa hann. Á heimasíðunni Swimeye kemur fram að um sé að ræða skynjara sem sendi frá sér boð til myndavéla og öryggisvarða ef manneskja liggur hreyfingarlaus á botni sundlaugar í örstuttan tíma. Fram kemur að kerfið sé mun fljótara en sundlauga-eða öryggisverðir að átta sig á að manneskja geti verið að drukkna. Það geti þannig komið í veg fyrir drukknanir í sundlaugum.
Fréttastofa óskaði upplýsinga um málið hjá Reykjavíkurborg sem benti á lögreglu sem fer með rannsókn málsins.
Tilkynning borgarinnar
Í tilkynningu frá Íþrótta-og tómstundaráði frá því í gær kemur fram að Íþrótta- og tómstundasvið hafi tekið málið fyrir og haldi því áfram næstu daga.
Menningar-, íþrótta- og tómstundaráði hafi verið gerð grein fyrir málinu.
Fram kemur að í sundlaugum sé farið eftir reglugerðum um hollustuhætti á sund-, og baðstöðum nr. 814/2010.
Í öllum sundlaugum í Reykjavík séu öryggismyndavélar.
Í Sundhöllinni séu einnig myndavélar með upptökubúnaði sem sýna yfirlitsmynd yfir laugarsal Sundhallarinnar.
Í Sundhöllinni sé laugarvörður á vakt hverju sinni í innilaug og annar í laugarvarðarturni með yfirsýn yfir útilaug og öryggismyndavélar.
Laugarvörður var í sal Sundhallarinnar þegar umrætt slys varð og laugarvörður í turni.
Lögreglan fer með rannsókn málsins og er lögreglan með upptökur úr öryggismyndavélum Sundhallarinnar.