Þau lyfjafyrirtæki sem fengið hafa markaðsleyfi fyrir bóluefnum sínum hafa átt erfitt með að anna eftirspurn. Þannig hafa orðið tafir á dreifingu bóluefnis Pfizer, sem vinnur nú að því að auka framleiðslugetu sína. Færri skammtar munu berast til Evrópulanda, þar á meðal Íslands, næstu vikurnar vegna þessa.
Sanofi hefur sjálft unnið að þróun bóluefnis gegn veirunni ásamt breska lyfjafyrirtækinu GSK. Bóluefnið reyndist ekki veita nógu góða vörn hjá eldra fólki og mun því ekki koma á markað fyrr en í lok þessa árs.
Paul Hudson forstjóri Sanofi tjáði franska dagblaðinu Le Figaro í dag að fyrirtækið muni aðstoða Pfizer við framleiðslu á hundrað milljónum skammta af bóluefni þess síðarnefnda. Skammtarnir verði allir framleiddir á þessu ári í verksmiðju Sanofi í Frankfurt. Ekki er þó gert ráð fyrir að framleiðsla á skömmtunum, þ.e. áfylling glasa og innpökkun, hefjist fyrr en í júlí.
„Þar sem aðalbóluefni okkar seinkaði um nokkra mánuði spurðum við okkur að því hvernig við gætum rétt fram hjálparhönd núna,“ sagði Hudson í Le Figaro.
Sanofi hyggst þó enn koma sínu eigin bóluefni, sem er próteinbóluefni líkt og bóluefni AstraZeneca og Janssen, á markað. Þá mun það einnig halda áfram þróun á mRNA-bóluefni gegn veirunni ásamt bandaríska fyrirtækinu Translate Bio.
Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er gert ráð fyrir að rannsókn á bóluefni Sanofi fari í svokallaðan „fasa 2b“ í febrúar. Þá sé áætlað að samningagerð Íslands við Sanofi hefjist í byrjun janúar 2021. Upplýsingar um fjölda skammta liggi ekki fyrir, auk þess sem óvissa ríki enn um skráningu og afhendingartíma. Gera megi ráð fyrir að það verði í fyrsta lagi á fjórða ársfjórðungi.