Fótbolti

Í skýjunum með að hafa endurheimt Jökul

Sindri Sverrisson skrifar
Jökull Andrésson er mættur aftur til Exeter City.
Jökull Andrésson er mættur aftur til Exeter City. Getty/Jacques Feeney

Markvörðurinn Jökull Andrésson er mættur aftur til Exeter City að láni frá Reading og gildir lánssamningurinn til loka þessa tímabils.

Jökull, sem er 19 ára gamall og uppalinn hjá Aftureldingu, kom fyrst til enska knattspyrnufélagsins Reading árið 2017. Hann var lánaður til Exeter til skamms tíma í fyrrahaust og stóð sig vel. Fyrr í þessum mánuði fór hann svo á sjö daga neyðarláni til Morecambe, sem líkt og Exeter leikur í ensku D-deildinni.

Nú er Jökull svo kominn aftur til Exeter en svo skemmtilega vill til að hann lék gegn Exeter með Morecambe á þriðjudagskvöld.

Matt Taylor, stjóri Exeter, fór ekki leynt með ánægju sína yfir því að geta teflt Jökli fram frá og með leiknum við Carlisle United á morgun.

„Við erum algjörlega í skýjunum með að geta boðið Jökul velkominn aftur og hann er leikmaður sem að við þekkjum vel. Við reyndum að fá hann fyrr í þessum mánuði en þurftum að bíða. Hann hafði jákvæð áhrif á okkur síðast þegar hann var hér og það er algjörlega frábært að hann sé kominn aftur,“ sagði Taylor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×