Körfubolti

Hjalti: Vorum ömurlegir í dag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Hjalta Þór Vilhjálmssonar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu í kvöld.
Strákarnir hans Hjalta Þór Vilhjálmssonar töpuðu sínum fyrsta leik á tímabilinu í kvöld. vísir/hulda margrét

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var eðlilega súr og svekktur eftir fjörutíu stiga tapið fyrir Stjörnunni í kvöld.

„Við lentum strax undir og vorum komnir með fjögur stig þegar sex eða sjö mínútur voru búnar af leiknum. Þá fórum við að elta og ætluðum að ná þessu einn, tveir og bingó. Við spiluðum bara þeirra leik og fyrir vikið jókst munurinn. Við vorum okkar versti óvinur,“ sagði Hjalti eftir leik.

„Auðvitað vorum við ömurlegir í dag, hittum ekki neitt og vorum líka sjálfum okkur verstir.“

Þrátt fyrir tapið stóra kveðst Hjalti ekki hafa miklar áhyggjur af framhaldinu.

„Það skiptir engu máli hvort við töpum með fjörutíu stigum eða tveimur. Það er eiginlega sárara að tapa jöfnum leikjum. Við komum bara tvíefldir til leiks á móti ÍR á mánudaginn,“ sagði Hjalti.

Varamenn Keflavíkur höfðu ekki mikið til málanna að leggja framan af leik og Hjalti hefði viljað fá fleiri stig af bekknum.

„Fyrri hálfleikurinn var hrikalegur og þá voru bara fjórir búnir að skora. Auðvitað er vont þegar það koma ekki fleiri stig og þau séu ekki að dreifast og það sé ekki ógn annars staðar frá,“ sagði Hjalti.

„Þetta hefur gengið hingað til. Svo hafa menn eins og Gústi [Ágúst Orrason], [Arnór] Sveinsson og Þröstur [Leó Jóhannsson] komið með punkta og gert vel í sumum leikjum en við þurfum að fá þetta sem oftast.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×