Erlent

ESB hættir við um­deilda á­kvörðun um bólu­efnis­út­flutning

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Arlene Foster, fyrsta ráðherra Norður-Írlands. Þau lýstu bæði yfir áhyggjum af ákvörðun ESB í kvöld.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, ræðir við Arlene Foster, fyrsta ráðherra Norður-Írlands. Þau lýstu bæði yfir áhyggjum af ákvörðun ESB í kvöld. Vísir/getty

Evrópusambandið er hætt við að virkja ákvæði í Brexit-samningnum, sem ætlað var að hamla útflutningi bóluefnis gegn kórónuveirunni frá ríkjum sambandsins til Norður-Írlands. Ákvörðunin, sem tengist deilum ESB við bóluefnaframleiðandann AstraZeneca, var fordæmd í Bretlandi og víðar.

Framkvæmdastjórn Evr­ópu­sam­bands­ins virkjaði í kvöld nýj­ar regl­ur sem veita sambandinu heim­ild til að banna út­flutn­ing á bólu­efni frá ríkjum sambandsins, ef viðkom­andi lyfja­fyr­ir­tæki hef­ur ekki staðið við samn­inga við sambandið - líkt og ESB sakar AstraZeneca um að hafa gert. 

ESB segir um að ræða „tímabundið fyrirkomulag“ en ekki útflutningsbann. Um hundrað ríki eru á und­anþágulista frá heim­ild­inni, þar á meðal Ísland og hin EFTA-rík­in. Þessi ákvörðun ESB stendur enn.

ESB gaf það hins vegar einnig út í dag að það hygðist virkja ákvæði í Brexit-samningnum sem snýr að útflutningi ESB til Norður-Írlands. Með því vildi sambandið koma í veg fyrir að Norður-Írlandi yrði eins konar „bakdyr“ fyrir innflutning bóluefnis frá Evrópu til Bretlands.

Bresk stjórnvöld lýstu yfir miklum áhyggjum vegna málsins í kvöld. Þá lýsti Arlene Foster, fyrsti ráðherra Norður-Írlands, ákvörðuninni sem „ótrúlegum fjandskap“ af hálfu ESB. Evrópusambandið tilkynnti þó að endingu í kvöld að það hefði hætt við að virkja ákvæðið.

Skella skuldinni hvort á annað

Evrópusambandið og AstraZeneca hafa staðið í deilum undanfarna daga eftir að fyrirtækið tilkynnti að það gæti ekki staðið við afhendingaráætlun sína á fyrsta ársfjórðungi. Bólusetning í Evrópu mun tefjast vegna þessa.

AstraZeneca hefur skellt skuldinni á ESB og sagt sambandið hafa verið of svifaseint að semja um kaup á bóluefni. Þannig skrifuðu Bretar undir samning við AstraZeneca þremur mánuðum á undan ESB.

ESB telur hins vegar að AstraZeneca beri að afhenda löndum sambandsins alla skammta sem samið var um. Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar ESB sagði til að mynda á Twitter í dag, um leið og hún tilkynnti að bóluefnið hefði fengið markaðsleyfi í Evrópu, að hún byggist við því að allir fjögur hundruð milljón skammtarnir frá AstraZeneca yrðu afhentir.


Tengdar fréttir

Bóluefni AstraZeneca komið með markaðsleyfi á Íslandi

Lyfjastofnun veitti rétt í þessu bóluefni AstraZeneca gegn kórónuveirunni skilyrt íslenskt markaðsleyfi. Bóluefnið er það þriðja sem fær markaðsleyfi hér á landi en bólusetning er þegar hafin með bóluefnum Pfizer og Moderna.

Bólu­efni AstraZene­ca komið með markaðs­leyfi í Evrópu

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti nú síðdegis skilyrt markaðsleyfi fyrir bóluefni lyfjafyrirtækisins AstraZeneca gegn Covid-19 í Evrópu. Dreifing á bóluefninu í álfuni mun því geta hafist von bráðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×