Navalní var handtekinn og settur í gæsluvarðhald við komu hans til Rússlands fyrir um tveimur vikum síðan. Hann sneri í fyrsta skipti heim eftir að hafa flúið landið í ágúst eftir að eitrað var fyrir honum. Hann hefur sakað stjórnvöld í Rússlandi um að hafa skipulagt eiturefnaárásina, sem þau hafa neitað.
Í höfuðborginni Moskvu hefur lestarstöðvum verið lokað í því skyni að draga úr samgöngumöguleikum mótmælenda. Þá hefur samgönguleiðum í miðborginni verið lokað.
Mótmælendur gerðu tilraun til þess að komast að Matrosskaya Tishina fangelsinu, þar sem Navlaní er haldið.
Yulia Navalnaya, eiginkona Navalnís, er meðal þeirra sem var handtekin við mótmælin í dag.
Lögreglan heldur því fram að mótmælin séu ólögleg og rússnesk yfirvöld hafa varað við því að mótmælin gætu valdið mikilli aukningu í kórónuveirusmitum.