Fimmtán mánuðir eru frá því Icelandair ferjaði fimm af sex Max-vélum sínum til geymslu á Spáni. En núna er komið að því að sækja þær aftur. Í þjálfunarsetri félagsins að Flugvöllum í Hafnarfirði er byrjað að þjálfa flugmennina í flughermi, sem búið er að uppfæra í samræmi við nýja verkferla, eins og sjá mátti í fréttum Stöðvar 2.
„Flugeftirlitsstofnun Evrópu hefur sett ákveðin skilyrði og ákveðnar kröfur varðandi þjálfun, sem við erum búin að bæta inn í okkar þjálfun,“ segir Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair.

Flugstjórinn og flotastjórinn Þórarinn Hjálmarsson æfði flugtak og klifur í flugherminum. En getur hann sagt farþegum að það sé óhætt að ferðast með þessari flugvél?
„Ég held að það sé ekki nokkur spurning. Og allir þeir aðilar, sem hafa komið að þessum breytingum og þessari yfirferð - það er ekki nokkur maður þar sem myndi þora að setja þessa flugvél í loftið nema að vera 110 prósent viss um að það sé allt í fínu standi.
Og þessar breytingar sem Boeing hefur gert geri það að verkum að það er útilokað að lenda í samskonar áfalli og slysum eins og gerðust þarna á sínum tíma,“ segir Þórarinn.

Flugvirkjar Icelandair eru þegar komnir til Spánar til að gera fyrstu vélarnar klárar fyrir heimflug.
„Við eigum von á því að getað ferjað vélarnar heim öðru hvoru megin við næstu helgi. Það er stefnt að því, ef allt gengur upp,“ segir Haukur.
Áformað sé að Maxinn fari svo að flytja farþega Icelandair með vorinu.
„Vélin er búin að fara í gegnum mjög ítarlegt endursamþykktaferli af hálfu bestu sérfræðinga í heiminum; eftirlitsstofnana, Boeing, verkfræðinga, NASA og fleiri óháðra aðila. Þannig að við lítum svo á að vélin sé örugg og góð vél og því óhætt að fljúga í henni,“ segir flugrekstrarstjóri Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: