Yfirvöld í Rússlandi hafa farið fram á að Navalní verði fangelsaður fyrir að brjóta gegn skilorðsdómi frá 2014. Fangelsismálayfirvöld segja að það hafi hann gert með því að fara til Þýskalands síðasta sumar og halda til þar.
Hann var handtekinn vegna þessa þegar hann sneri aftur til Rússlands þann 17. janúar. Navalní hafði þá verið í Þýskalandi frá því í sumar, eftir að eitrað var fyrir honum með taugaeitrinu Novichok í Rússlandi. Fjölskylda hans og bandamenn fluttu hann í dái til Þýskalands.

Blaðamenn sem sitja réttarhöldin segja að Navalní hafi sagt saksóknurum að hann hafi verið í dái og spurt hvernig hann hafi átt að láta vita af því að hann væri að fara til Þýskalands. Eftir að hann vaknaði og var á gjörgæslu hafi hann sent sjúkragögn, heimilisfang sitt í Þýskalandi og upplýsingar um hvernig hægt væri að ná í sig til fangelsismálayfirvalda Rússlands.
Farið hefur verið fram á að Navalní verði gert að sitja í fangelsi í þrjú og hálft ár. Frekar má lesa um málaferlin gegn Navalní, og önnur, hér að neðan.
Sjá einnig: Saksóknarar segja fangelsiskröfu sanngjarna
Samkvæmt eftirlitsaðila hafa minnst 237 verið handteknir við dómshúsið. Interfax fréttaveitan segir að þar að auki hafi viti sem rætt var við séð lögregluþjóna handtaka ungt fólk á neðanjarðarlestarstöð nærri dómshúsinu. Svo virðist sem að ungt fólk hafi verið handtekið vegna gruns um að þau hafi ætlað að taka þátt í mótmælum.
TASS fréttaveitan, sem er í eigu rússneska ríkisins, hefur eftir Maríu Sakarovu, talsmanni utanríkisráðuneytis Rússlands, að vera erlendra erindreka við réttarhöldin yfir „bloggaranum Alexei Navalní“, eins og hann er kallaður, sé til marks um að afskipti þeirra af málefnum Rússlands og jafnvel tilraun til að beita dómara málsins þrýstingi.
Fréttaveitan hefur einnig eftir talsmanni Vladimírs Pútin, forseta, að sá fylgist ekki með málaferlunum. Talsmaðurinn, Dmitry Peskov, nefnir Navalní ekki á nafn og kallar hann „fangann“. Hann segist vonast til þess að mál fangans muni ekki koma niður á samskiptum Rússlands og Evrópusambandsins.
Hér má sjá tíst blaðamanns New York Times, þar sem hann segir lögregluþjóna handtaka mótmælendur nánast um leið og þeir mæta fyrir utan dómshúsið.
Don t think @navalny supporters stand any chance of mounting any kind of protest in the vicinity of Moscow City Court today. More than 100 have been detained already, according to @OvdInfo. Some are detained right away: We have been waiting for you! one police officer told one. pic.twitter.com/FSLvuDbPbN
— Ivan Nechepurenko (@INechepurenko) February 2, 2021