Enski boltinn

Meistaradeildarleikur Liverpool mögulega á flakk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané og félagar í Liverpool mega möguleika ekki ferðast til Þýskalands þegar fyrri leikurinn á að fara fram.
Sadio Mané og félagar í Liverpool mega möguleika ekki ferðast til Þýskalands þegar fyrri leikurinn á að fara fram. Getty/Andrew Powell

Það styttist í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar en það er samt ekki alveg ljóst hvar allir leikirnir verða spilaðir.

Liverpool mætir þýska liðinu RB Leipzig í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en ferðabann í Þýskalandi hefur skapað óvissu um hvar fyrri leikur liðanna verður spilaður.

Þjóðverjar eru eins og aðrar þjóðir Evrópu í harðri baráttu við kórónuveiruna og til að koma í veg fyrir að breska afbrigðið nái einhverri fótfestu í Þýskalandi þá hefur þýska ríkisstjórnin bannað flug frá Bretlandi til 17. febrúar.

RB Leipzig átti að taka á móti Liverpool í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitunum 16. febrúar. Knattspyrnusamband Evrópu þarf því að finna lausn á þessu vandamáli en Liverpool Echo skrifar um málið.

Einn möguleikinn er að skipta á heimaleikjum og spila fyrri leikinn á heimavelli Liverpool en þann seinni í Þýskalandi en sá leikur á að fara fram 10. mars næstkomandi.

Liverpool væri þá að gefa eftir réttinn sem liðið vann sér inn með því að vinna sinn riðil en það er að eiga heimaleikinn til góða. Það er varla góður kostur fyrir Englandsmeistarana.

Það gæti því farið svo að þýska liðið yrði að spila heimaleikinn sinn á hlutlausum velli. Það yrði raunin ef Liverpool fær ekki leyfi til að lenda í Þýskalandi.

Fleiri ensk lið eru í svipuðum vandamálum eins og Arsenal sem á að mæta Benfica í Portúgal í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar 18. febrúar. Arsenal er að ræða við UEFA um að finna hlutlausan leikstað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×