Fram kemur í tilkynningu frá samtökunum að Arnar hafi víðtæka reynslu á vettvangi skóla-, frístunda- og forvarnarmála og unnið á þeim vettvangi meira og minna frá árinu 1991. Síðastliðin ár hefur hann starfað við ráðgjöf og greiningar er varða umbætur í skólastarfi og komið að bæði innra og ytra mati grunnskóla, nú síðast fyrir skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar.
Arnar útskrifaðist úr kennslufræði (B.Ed ) frá Kennaraháskóla Íslands og lauk í framhaldi M.Sc í kennslufræði með áherslu á skilvirkni og stefnumótun frá Háskólanum í Groningen í Hollandi. Hann er einnig með M.Sc í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands.
Margir haft áhuga á starfinu
„Stjórn Heimilis og skóla býður Arnar velkominn til starfa og þakkar jafnframt Hrefnu fyrir ómetanlegt starf í þágu samtakanna síðastliðinn áratug og óskar henni alls hins besta á nýjum vettvangi,“ segir í tilkynningu.
Þá er haft eftir Sigrúnu Eddu Eðvarðsdóttur, formanni Heimilis og skóla, að margir hafi sýnt starfi framkvæmdastjóra áhuga. Með ráðningu Arnars sé á vissan hátt brotið blað í sögu samtakanna þar sem hann sé fyrsti karlmaðurinn til að gegna stöðu framkvæmdastjóra Heimilis og skóla í tæplega 29 ára sögu þeirra.