Í tísti sem Guðlaugur sendi frá sér eftir að dómur yfir Navalní féll síðdegis í dag segir hann rangt að þagga niður í pólitískum andstæðingum og koma þeim fyrir bak við lás og slá. Navalní er einhver háværasti og áhrifamesti andstæðingur Vladimírs Pútín, forseta Rússlands. Segir Guðlaugur að dómurinn yfir Navalní minni á „ógnvekjandi fortíð.“
„Ég biðla til Rússlands að sleppa [Navalní] undir eins, sem og þeim sem ranglega eru í varðhaldi fyrir að mótmæla,“ skrifar Guðlaugur Þór. Talið er að um tvö hundruð mótmælendur hafi verið handteknir fyrir utan dómshúsið í Moskvu í morgun.
Deeply disappointed over the verdict against Alexei Navalny @navalny. Silencing political opponents by putting them behind bars is never acceptable & is reminiscent of a grim past. Calling on #Russia to release him immediately as well as those wrongfully detained for protesting.
— Guðlaugur Þór (@GudlaugurThor) February 2, 2021
Sá fjöldi er þó ekki nema brot af því sem var á sunnudaginn þegar stærstu mótmæli í áratugaraðir áttu sér stað víðs vegar um landið vegna meðferðar stjórnarandstæðingsins. 5.750 voru handtekin, þar af rúmlega 1.900 í Moskvu.
Rauf skilorð meðvitundarlaus
Á meðan mótmælendur voru handteknir fyrir utan stóð Navalní inni í dómsalnum í eins konar glerbúri.
Hann var handtekinn við komuna til Moskvu á dögunum og gefið að sök að hafa rofið skilorð vegna umdeilds dóms sem hann fékk fyrir fjárdrátt árið 2014.
Navalní átti að gefa sig fram við lögreglu með reglulegu millibili. Það gerði hann ekki undir lok síðasta árs enda var hann á sjúkrahúsi í Berlín eftir að eitrað hafði verið fyrir honum í borginni Tomsk og hann verið fluttur meðvitundarlaus til Þýskalands. Rússnesk yfirvöld hafa verið sökuð um eitrunina, en segjast saklaus.