Í tilkynningu kemur fram að Gréta María sé með víðtæka reynslu úr atvinnulífinu. Hún var framkvæmdastjóri Krónunnar þar til í vor og áður fjármálastjóri Festi.
„Gréta hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar árið 2019 fyrir áherslu á umhverfis- og lýðheilsumál í störfum sínum hjá Krónunni. Hún býr einnig að reynslu úr bankakerfinu og upplýsingatæknigeiranum. Hún hefur setið í fjölmörgum stjórnum og einnig sinnt kennslu við verkfræðideild Háskóla Íslands og við MPM nám í verkefnastjórn. Gréta lauk meistaragráðu í verkfræði frá Háskóla Íslands 2008,“ segir í tilkynningunni.
Haft er eftir Grétu Maríu að hún sé mjög ánægð að vera komin til Brims og hlakki til að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á fyrirtækinu. „Brim hefur verið leiðandi í umhverfismálum og við munum halda áfram að starfa í sátt við umhverfið og samfélagið. Við munum einnig leggja okkar af mörkum við að styðja við verðmætasköpun í bláa hagkerfinum með öflugri rannsóknar og þróunarvinnu,“ segir Gréta.
Hjá Brimi starfa um 800 manns en fyrirtækið framleiðir afurðir úr sjávarfangi.