Skoðun

Látum verkin tala

Stefán Már Gunnlaugsson skrifar

Nú hefur verið brotið í blað í sögu Hafnarfjarðar. Í bænum hefur verið stöðug fjölgun íbúa allt frá árinu 1939 - þar til núna. Íbúum Í Hafnarfirði fækkaði um 1% á síðasta ári, þrátt fyrir öra fólksfjölgun í öllum nágrannasveitarfélögunum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið burðarás í meirihluta við stjórn bæjarins s.l. sjö ár. Fólksfækkunin er minnisvarði um þá stjórn og fer í sögubækur.

Íbúum fjölgar ekki í Hafnarfirði þó forystumenn meirihlutans stígi fram á ritvöllinn og telji sér trú um að allt sé í fínu lagi hjá þeim, en einhverjir aðrir séu að leggja stein í götu þeirra. Nú boða þeir að gripið skuli til nýrra vinnubragða og ætla að virkja fólkið í bænum með sér til verka. Þetta er einmitt það sem Samfylkingin hefur aftur og aftur lagt til, m.a. með því að standa við skipulag, sem unnið hefur verið í samráði við fólkið í bænum, en fulltrúar meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks gjarnan snúist gegn á síðustu stundu og vilja umturna. Það er dæmigert fyrir hringlandann og stöðnunina í skipulagsmálum bæjarins.

Nú er ráð að láta verkin tala. Við megum ekki við öðru ári þar sem íbúum heldur áfram að fækka í Hafnarfirði. Þar mun Samfylkingin ekki láta deigan síga í nánu samstarfi við fólkið í bænum.

Höfundur er varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði og fulltrúi í skipulags- og byggingaráði.




Skoðun

Sjá meira


×