Skoðun

Hjálpið okkur frekar en að smána

Phoenix Ramos Proppé skrifar

Kæra Marta. Til hamingju með að kunna tungumál sem þú lærðir í skóla frá því þú varst barn og er einnig náskylt móðurmáli þínu. Svo tókst þér að læra þriðja tungumálið sem er nátengt þínu öðru máli. Þetta tókst þér í löndum þar sem stuðningur við innflytjendur er ríkulegur, meðal annars í formi tungumálanámskeiða.

Svo skrifar þú þessa gagnslausu og fordómafullu grein þar sem þú hneykslast á útlendingum sem tala ekki íslensku. Hvernig á það að gagnast einhverjum? Greinin þín hjálpar engum að læra íslensku en hún hjálpar hins vegar við að auka þá andúð sem sumir Íslendingar hafa á innflytjendum. Í afstöðu þinni notar þú jafnframt tungumálið til að útiloka innflytjendur enn frekar frá íslensku samfélagi.

Íslenska er með erfiðari tungumálum sem ég hef kynnst og þó lærði ég mandarín. Við útlendingarnir höfum einfaldlega verið of upptekin við að ala upp börnin ykkar, sjá um gamalmennin ykkar, þrífa undan ykkur skítinn og halda uppi hagvexti til að hafa náð að temja okkur tungumál sem er með 16 orðmyndir af orðinu köttur. Flest myndum við gjarnan vilja læra íslensku en okkur vantar stuðning. Kerfið sem í boði er mætir ekki þörfum þeirra sem þarfnast þess í dag.

Þú ert íslenskukennari og ættir að vita betur en flestir hversu mikið flóknari íslenska er en önnur, jafnvel náskyld tungumál. Mér blöskrar að kennari skrifi svona grein.

Væri ekki betra, í stað þess að skamma innflytjendur fyrir að læra ekki íslensku, að tala fyrir því að fleiri úrræði séu búin til sem geta hjálpað innflytjendum á vinnumarkaði að læra íslensku? Mér virðist sem þú hafir bæði tímann til þess og einnig menntun og vettvang.

Höfundur er bandarískur innflytjandi á Íslandi


Tengdar fréttir

Ég tala dönsku í Danmörku

Á námsárum mínum í Danmörku lagði ég mig fram um að tala dönsku. Bæði vegna þess að ég vissi að ég næði betra sambandi við fólkið sem bjó í landinu og einnig af virðingu við Dani og móðurmál þeirra.

Talar þú ís­lensku á Ís­landi?

Ég geri það, en ekkert að marka mig því ég er fædd og uppalin á Íslandi. Það væri eins ef ég væri fædd og uppalin einhvers staðar annars staðar, þá gæti ég sjálfsagt talað reiprennandi móðurmálið í því landi. Það gefur auga leið.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×