Finnur hafði nokkrar skýringar á tapinu.
„Við vorum daprir sóknarlega á löngum köflum og fengum aðallega líf frá Miguel Cardoso sem náði að skora og skapa eitthvað fyrir okkur. Vörnin þeirra hertist og við náum bara ekki að búa okkur til nógu góð skot undir lokin.“
Er óhætt að nota „arfaslakt“ til að lýsa frammistöðu Vals í fyrsta leikhluta?
„Arfaslakt er hárrétt orð fyrir þessa frammistöðu.“ sagði Finnur hreinskilinn og bætti við að meiðsli Kristófers Acox hefðu svo sannarlega ekki hjálpað í þessum slag.
„Hann er bara búinn að vera tæpur og gat ekki spilað síðasta leik. Við gerðum okkur vonir að hann gæti spilað þennan leik en hann fær verk í kálfann stuttu fyrir leik. Við ákváðum að prófa hann en það sást bara strax í byrjun að hann var ekki leikfær og kannski vitleysa hjá okkur að reyna að þjösnast á honum. Kannski hafði þetta einhver áhrif á byrjunina hjá okkur, það var vont að missa hann út.“
Valsmenn blésu í herlúðra fyrir tímabil en gengið hefur ekki verið gott. Er staða liðsins áhyggjuefni?
„Já, að sjálfsögðu. Það er fyrst og fremst spilamennskan sem er áhyggjuefni myndi ég segja. Deildin er gríðarlega jöfn og við erum bara búnir að vera slakir í alltof mörgum leikjum, Það er stóra áhyggjuefnið og við þurfum að nýta landsleikjahléið mjög vel. Fyrst þurfum við samt að byrja á því að mæta stemmdari í næsta leik, gegn Keflavík á föstudaginn,“ sagði Finnur að lokum.

Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.