Kim Kielsen forsætisráðherra lýsti því hins vegar yfir að stjórnin myndi sitja áfram sem minnihlutastjórn. Það yrði að vera ákvörðun þingsins hvort kosið yrði að nýju, að því er fram kemur í Sermitsiaq. Vittus Qujaukitsoq, formaður Nunatta Qitornai, hins flokksins sem eftir situr í stjórninni, kvaðst þó búast við nýjum kosningum innan fárra vikna.
Það flækir enn stöðuna að Erik Jensen, sem í nóvember felldi Kim Kielsen úr formannssæti Siumut-flokksins, er sjálfur byrjaður viðræður við stærsta stjórnarandstöðuflokkinn, Inuit Ataqatigiit, eða IA, um myndun nýrrar stjórnar, eftir að hafa mistekist að ná forsætisráðherrastólnum af Kim Kielsen.
Siumut-flokkurinn er þannig klofinn í herðar niður vegna átaka þeirra Kims Kielsens og Eriks Jensens en innanflokksátök Siumut-flokksins er ein af ástæðunum sem formaður Demokraterne nefndi fyrir því að slíta stjórnarsamstarfinu, að því er KNR greinir frá. Hann nefndi einnig þá óvissu sem komin væri upp um námavinnslu við bæinn Narsaq vegna ágreinings innan Siumut-flokksins. Þar er áformað að vinna úran, zink og fjölda sjaldgæfra málma.