Eftir að einn þriggja stjórnarflokka, Demokraterne, sagði skilið við landsstjórnina í gær lýsti Kim Kielsen því yfir að stjórnin myndi sitja áfram sem minnihlutastjórn, þrátt fyrir að hún hafi núna aðeins 11 þingsæti af 31 á grænlenska þinginu. Formaður Demokraterne krafðist kosninga en Kielsen svaraði því til að það væri þingsins að ákveða slíkt.

Fljótlega eftir að Erik Jensen sigraði Kim Kielsen í formannsslag innan Siumut þann 30. nóvember lýsti hann því yfir að hann gerði einnig ráð fyrir að taka við forsæti landsstjórnarinnar.
Fyrst reyndi hann um miðjan janúar að fá hina stjórnarflokkanna til að fallast á forsætisráðherraskipti. Þegar það reyndist árangurslaust hóf hann viðræður við forystumenn stjórnarandstöðuflokka um myndun nýrrar stjórnar. Í dag varð svo ljóst að enginn þeirra hafði áhuga á að ganga til stjórnarsamstarfs við Siumut-flokkinn undir stjórn Jensens, að því er fram kemur í Sermitsiaq. Þeir bera því meðal annars við í viðtali við KNR að flokkurinn sé óstjórntækur vegna innanbúðarátaka.

Hvort Kielsen takist að halda völdum sem leiðtogi Grænlands skýrist betur næstkomandi þriðjudag, þann 16. febrúar, þegar þingið kemur saman að nýju eftir vetrarhlé. Í frétt KNR í dag segir að enginn viti hvað þá muni gerast. Kielsen gæti sjálfur ákveðið að víkja friðsamlega en einnig gæti myndast meirihlutastuðningur við vantrauststillögu, sem þá þýddi kosningar.
Kim Kielsen segist hins vegar engan áhuga hafa á að efna núna til þingkosninga. Hann vilji freista þess að halda áfram svo fremi að það sé mögulegt fyrir minnihlutastjórn að vinna störf sín.