Íslensku landsliðsmennirnir voru saman í liði í æfingaleik í dag þar sem leikmannahópi CSKA var skipt upp í tvö lið. Arnór skoraði annað af mörkum liðsins, í 3-2 tapi.
Fyrr í vikunni birti CSKA myndband á samfélagsmiðlum þar sem Hörður var í sviðsljósinu. Varnarmaðurinn hélt þá á boltanum fyrir aftan endalínuna, lét hann falla og skoraði með skemmtilegum snúningi.
Markið má sjá hér að neðan en eftir að hann skoraði mátti heyra Hörð segja við liðsfélaga sína „sýnið mér seðlana“, sjálfsagt búinn að veðja við einhverja þeirra um hvort hann gæti skorað svona.
Leikmenn CSKA komu til Spánar 17. janúar til mánaðardvalar við æfingar í hitanum í vetrarfríinu í Rússlandi. Liðið spilar svo í 16-liða úrslitum rússneska bikarsins 21. febrúar og keppni í rússnesku úrvalsdeildinni hefst aftur nokkrum dögum síðar. CSKA er í 2. sæti deildarinnar með 37 stig eftir nítján umferðir, fjórum stigum á eftir meisturum Zenit.
Arnór og Hörður ættu því að hafa getað spilað fimm leiki áður en að íslenska landsliðið kemur saman í sína fyrstu leiki í undankeppni HM seinni hluta mars.