Körfubolti

„Það var svakaleg orka í okkur“

Sindri Sverrisson skrifar
Jakob Örn Sigurðarson skoraði 14 stig í kvöld í sigrinum á Stjörnunni.
Jakob Örn Sigurðarson skoraði 14 stig í kvöld í sigrinum á Stjörnunni. vísir/bára

„Þetta var rosagóður sigur á heimavelli, loksins. Mér finnst þetta vera á uppleið og ég var ánægður með okkur í dag,“ sagði Jakob Örn Sigurðarson eftir sigur KR á Stjörnunni í Dominos-deildinni í körfubolta í kvöld.

KR vann fyrsta leikhluta 31-13 og leikinn samtals með níu stiga mun, 100-91.

„Við byrjuðum rosalega sterkt, hittum vel og það var svakaleg orka í okkur. Við náðum öllum lausum boltum og slíkt. Það var mjög gott. Svo náttúrulega koma þeir inn í leikinn. Við vorum að spila við rosalega gott lið – reynda menn – og þeir fundu svolítið lausnir við því sem við vorum að gera þegar þeir voru að „pósta upp“. Að sama skapi var mjög gott hjá okkur að missa ekki hausinn heldur halda dampi og ná að klára þetta í lokin,“ sagði Jakob.

Stjarnan minnkaði muninn um 13 stig í þriðja leikhluta, niður í aðeins þrjú stig.

„Við vissum alveg að þeir myndu koma með eitthvað „run“. Það gerðist frekar fljótt fannst mér, alveg í byrjun seinni hálfleiks þegar þeir komust strax inn í leikinn. Fjórði leikhluti var bara jafn og gat farið hvoru megin sem var. Ég er rosalega ánægður með að við skyldum finna lausn í lokin og setja niður stóru skotin,“ sagði Jakob sem setti niður fjögur af sjö þriggja stiga skotum sínum og skoraði alls 14 stig í leiknum.

KR-ingar, sem verða að teljast með lágvaxið lið, tóku fleiri fráköst en Stjörnumenn í fyrri hálfleiknum en enduðu þó með 36 fráköst gegn 46 fráköstum Stjörnunnar. Frammistaðan í fyrri hálfleiknum var þó það sem gerði útslagið í kvöld:

„Við erum litlir, erum að berjast en auðvitað gefum við upp sóknarfráköst. Það er bara gefið þegar maður er með minna lið, og svolítið mikið minna lið. En við erum með aðra kosti á móti. Það er erfiðara að dekka okkur, við erum hreyfanlegir, svo við reynum að vinna þetta upp á annan hátt,“ sagði Jakob en KR skoraði úr 18 af 39 þriggja stiga skotum sínum í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×