Erlent

Segja það mark­mið for­setans að loka Guantana­mo

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Úr Guantanamo-fangelsinu á Kúbu.
Úr Guantanamo-fangelsinu á Kúbu. Joe Raedle/Getty

Joe Biden Bandaríkforseti hefur falið ráðgjöfum sínum að ráðast í formlega endurskoðun á starfsháttum Guantanamo-herfangelsisins sem rekið er af Bandaríkjaher á Kúbu, með það að markmiði að fangelsinu verði lokað áður en Biden lætur af embætti.

Lokun fangelsisins var á meðal þeirra metnaðarfullu markmiða Baracks Obama, sem var forseti á árunum 2009-2017, sem ekki náðu fram að ganga. Biden var varaforseti Obama.

Reuters-fréttastofan greinir frá áformum forsetans og vísar til óformlegra viðræðna innan herbúða forsetans um að hann muni skrifa undir forsetatilskipun um endurskoðun á starfsháttum fangelsisins á næstu tveimur vikum. Þá hefur Reuters eftir Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúa forsetans, að markmið Biden-stjórnarinnar sé að loka fangelsinu.

Það er þó talið ólíklegt að sú endurskoðun sem Biden hefur falið ráðgjöfum sínum muni skila slíkum árangri á næstunni, þar sem áformum um lokun Guantanamo myndi mæta álíka pólitískri og lagalegri viðspyrnu og þau gerðu í valdatíð Obama.

Joe Biden sagðist í kosningabaráttu sinni vera fylgjandi því að Guantanamo-fangelsinu yrði lokað. Getty

Eitt alræmdasta fangelsi heims

Guantanamo-fangelsinu var komið á fót í kjölfar árásanna á Tvíburaturnana þann 11. september 2001 til þess að hýsa erlenda fanga sem grunaðir eru um hryðjuverk.

 Mannréttindasamtök hafa verið afar gagnrýnin á fangelsið og þær aðferðir sem þar er beitt til að yfirheyra fanga. Margir sem setið hafa í fangelsinu hafa lýst hræðilegum pyndingum á hendur sér og er fangelsið í hugum margra tákmynd þess harðræðis sem bandarísk stjórnvöld beita meinta hryðuverkamenn.

Í valdatíð sinni hafði Obama komið fyrirhugaðri lokun fangelsisins í ákveðið ferli. Því ferli var þó hætt árið 2017, um leið og Donald Trump tók við embætti forseta. Trump hélt fangelsinu opnu í þau fjögur ár sem hann sat á forsetastóli.

Fjörutíu fangar eru nú í fangelsinu. Flestum þeirra hefur verið haldið í vel á annan áratug, án þess að hafa verið ákærðir eða dæmdir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×