Skoðun

Hvað ert þú að gera ?

Heiða Björg Hilmisdóttir skrifar

„Nú drekk ég morgunkaffibollann í vinnunni“ sagði kona mér ánægð eftir að hennar atvinnuleit endaði með atvinnutækifæri. 

Því miður erum við öll ekki það lánsöm, það er átakanleg staðreynd að hér á landi eru nú ríflega tuttugu þúsund vinnufúsir einstaklingar sem ekki fá tækifæri til að láta til sín taka á vinnumarkaði. Af þeim búa ríflega áttaþúsund í Reykjavík en atvinnuleysi í borginni hefur ríflega tvöfaldast á einu ári. Á sama tíma hefur þeim fjölgað verulega sem eru atvinnulaus og án bótaréttar og þurfa því að reiða sig á fjárhagsaðstoð borgarinnar til framfærslu. Í báðum þessum hópum er stór hluti fólk með erlent ríkisfang og stór hluti ungt fólk. Það er erfitt að vera utan vinnumarkaðar og það getur verið skaðlegt heilsu og líðan fólks, álag á fjölskyldur og samfélagið allt ef ástandið varir í lengri tíma. Borgarstjórn hefur því samþykkt samhljóða að koma á fót atvinnu- og virknimiðlun sem mun halda utan um þær aðgerðir sem ráðist verður í til að mæta stöðu á vinnumarkaði næstu tvö árin. Í fyrsta áfanga verða sköpuð tvöhundruð störf, annarsvegar hundrað og fimmtíu störf og stuðningur fyrir einstaklinga sem eru án atvinnu og með bótarétt, og hins vegar 50 störf fyrir vinnufæra einstaklinga sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu. Með skilvirkri atvinnu- og virknimiðlun er hægt að minnka flækjustig, einfalda utanumhald og gefa fólki fleiri tækifæri sem getur skipt sköpum í þessum erfiðu aðstæðum. Unnið verður með þriðja geiranum, ríkisstofnunum og fyrirtækjum í borginni. Við erum á sama tíma að auka möguleika fólks til virkni eða bata, því hjá sumum okkar er atvinna ekki næsta skref. Í síðustu viku ákváðum við að rýmka viðmið um sérstakan húsnæðisstuðning fyrir tekjulágt fólk á vinnumarkaði og á næstu vikum munum við leggja fyrir nýjar reglur um fjárhagsaðstoð þar sem stóra fréttin verður trygging á þjónustu fyrir börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu.

Ein algengasta spurningin þegar fólk hittist er „hvað ert þú að gera?“ það skiptir máli að skapa öllum tækifæri til að svara þeirri spurningu með gleði. Það skiptir líka máli að Reykvíkingar finni það að við erum öll í sama liði, þó þessir erfiðu tímar snerti okkur vissulega með mismunandi hætti. Það er hlutverk stjórnvalda að jafna stöðu fólks og vinna gegn þeim ójöfnuði sem þessi ójafnaðarkreppa skapar. Það verkefni tekjur Samfylkingin alvarlega.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×