Erlent

Suu Kyi lengur í gæsluvarðhaldi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Gæsluvarðhaldsúrskurður yfir Aung San Suu Kyi, kjörnum leiðtoga Mjanmar, var framlengdur í dag. Herinn hótar mótmælendum tuttugu ára fangelsisdómum.

Tvær vikur eru nú liðnar frá því herinn tók völdin í Mjanmar og setti kjörna leiðtoga í stofufangelsi. Síðan þá hefur smám saman færst meiri kraftur í mótmæli gegn herforingjastjórninni.

Viðbúnaður hers og lögreglu er töluverður og komið hefur til átaka við mótmælendur. Hundruð hafa verið handtekin, meðal annars hópur nema frá þrettán og upp í sextán ára, sem  mótmælendur kröfðust að yrði leystur úr haldi í dag. Mótmælin hafa almennt farið fram með friðsamlegum hætti. 

Til stóð að Suu Kyi yrði leidd fyrir dóm í dag, en hún er sökuð um að hafa smyglað ólöglegum fjarskiptatækjum til landsins. Lögmaður hennar sagði því þó hafa verið frestað, þótt ástæðan liggi ekki fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×