Innlent

Íslendingar komist heim án PCR-prófs en líkast til beittir sektum

Birgir Olgeirsson skrifar
Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Vísir/Vilhelm

Engum íslenskum ríkisborgara verður meinað að koma til landsins samkvæmt reglugerð um kröfu á farþega um að framvísa neikvæðu PCR-prófi áður en þeir koma til Íslands. Framkvæmdin hefur enn ekki verið fullmótuð en grípa þyrfti til viðurlaga ef Íslendingur kemur ekki með neikvætt próf til landsins.

Fimmta daginn í röð greindist enginn með kórónuveiruna innanlands í gær. Sex greindust með veiruna á landamærum, fimm með virk smit í fyrri skimun og er niðurstöðu mótefnamælingar beðið í tilvikum eins.

Reglugerð um nýjar takmarkanir á landamærunum, sem taka gildi á föstudag, var birt í gær. Þar kemur fram að allir ferðamenn sem koma til Íslands, og hafa dvalið meira en sólarhring á síðastliðnum 14 dögum í löndum sem skilgreind eru sem áhættusvæði, er skylt að framvísa vottorði á landamærastöð, eða áður en farið er um borð í flugvél eða skip, um neikvætt PCR próf sem er ekki eldra en 72 klukkustundir.

Þessi krafa er sett á alla farþega óháð ríkisfangi. Hins vegar er tekið fram í reglugerðinni að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins þó þeir hafi ekki neikvætt PCR-próf við brottför. Ef það gerist yrði væntanlega gripið til viðurlaga í garð þess sem er ekki með neikvætt PCR-próf við komuna til landsins. Yrði þar gripið til sektar en enn á eftir að ákveða hvað sektir verða háar við brot á reglugerðinni.

Landamæraverðir munu hafa heimild til að vísa erlendu ríkisborgurum úr landi ef þeir uppfylla ekki kröfur um neikvætt PCR-próf við komuna til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×