Erlent

Bein útsending: Sjö mínútur af ótta

Samúel Karl Ólason skrifar
Tölvuteiknuð mynd af lendingu Perseverance í Jeasdfg gígnum.
Tölvuteiknuð mynd af lendingu Perseverance í Jeasdfg gígnum. Vísir/NASA

Vísindamenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA, munu í kvöld gera tilraun til að lenda vélmenninu Perseverance, eða Þrautseigja, á yfirborði Mars eftir tæplega 500 milljón kílómetra ferðalag yfir hálft ár.

Lendingin er erfiðasti áfangi ferðarinnar. Jeppinn þarf að hægja allsvakalega á sér, en þegar hann fer sem hraðast fer hann um tuttugu þúsund kílómetra á klukkustund. Á þeim hraða gæti maður keyrt frá Reykjavík til Akureyrar á rúmri mínútu.

Hægt verður að fylgjast með lendingunni í útsendingu NASA hér að neðan. Útsendingin hefst upp úr klukkan sjö í kvöld og er áætlað að lendingin sjálf hefjist skömmu fyrir níu.

Í raun eru tvö vélmenni að lenda á Mars í kvöld, heppnist lendingin, því um borð í Perseverence er vélmennið Ingenuity. Það er lítil þyrla sem reynt verður að fljúga um Mars en ekki er vitað hvort það sé í raun hægt. Þyrlan er tæp tvö kíló að þyngd og er með fjóra 1,2 metra langa spaða.

Þeir spaðar snúast um 2.400 sinnum á mínútu, sem er um átta sinnum hraðar en hefðbundnar þyrlur gera á jörðinni.

Andrúmsloft Mars er mun þynnra en andrúmsloft jarðarinnar og er þéttleiki þess einungis eitt prósent af því sem við þekkjum. Á móti kemur að þyngdaraflið á Mars er einungis þriðjungur þess sem við erum vön hérna á jörðinni.

Takist að fjúga Ingenuity, myndi það opna á möguleikann á því að senda frekari fljúgandi vélmenni til Mars í framtíðinni og jafnvel þyrlur sem hægt væri að nota til að ferja búnað frá einum lendingarstað til annars.

Perseverance og Ingenuity munu lenda í Jezero-gígnum sem á árum áður var fullur af vatni. Lendingin á að vera nærri gömlum ós, því þar þykja meiri líkur en annars á því að vélmennið rambi á leyfar örvera sem hafa mögulega lifað á Mars á árum áður.

Vélmennið mun taka jarðvegssýni og verður búnaður þess til að rannsaka þau sýni eins vel og hægt er. Bestu sýnin mun vélmennið undirbúa fyrir flutning aftur til jarðarinnar, sem á að gerast seinna á áratugnum.

Hér má sjá farveg árinnar sem flæddi í Jezero-gíginn.NASA/JPL-Caltech

Meðal tækja í Perseverance eru SHERLOC (sem er skammstöfun fyrir munnfyllina Scanning Habitable Ennvironments with Raman & Luminescence for Organics & Chemicals) sem greinir lífrænar öreindir.

Vélmennið ber einnig græjuna PIXL (Planetary Instrument for X-ray Lithochemistry) sem greina á samsteningu jarðvegs Mars og mögulegra lífrænna sameinda.

Áhugsamir geta lesið betur um leitina að lífi á Mars hér á vef NASA.

Hér má sjá myndband NASA um Jezero, sem gert var árið 2018.

Perseverance á einnig að nota til að undirbúa mannaðar ferðir til Mars.

Vélmennið ber til að mynda lítið tæki sem kallast MOXIE (Mars Oxygen In-Situ Resource Utilization Experiment). Því tæki er ætlað að kanna hvort mögulegt sé að framleiða súrefni úr andrúmslofti Mars, sem er úr koltvísýringi.

Sé það hægt væri hægt að nota það súrefni til öndunar og í eldflaugaeldsneyti.

Tækið MEDA (Mars Environmental Dynamics Analyzer) verður notað til að rannsaka andrúmsloft og veðurfar Mars. Það verður einnig notað til að skoða ryk plánetunnar nánar og þykir einkar mikilvægt fyrir mannaðar geimferðir.

Frekari upplýsingar um tækjabúnað Perseverance má finna hér á vef NASA.

Lendinginn sjálf er áhugaverð en hún mun taka um sjö mínútur og er sjálfsstýrð. Vísindamenn NASA munu því þurfa að fylgjast með úr fjarska og tekur það nokkrar mínútur að fá á hreint hvort að lendingin heppnaðist eða ekki, ef mið er tekið af því þegar Curiosity, „frænda“ Perseverance var lent á Mars.

Lendingarferlið kalla NASA-liðar „sjö mínútur af ótta“.

Í Jezero-gígnum eru gamlir árfarvegir, grjóthnullungar og annað sem getur valdið Perseverance tjóni við lendingu. 

Til að forðast það og svo vélmennið geti lent á góðum stað, mun það svífa í fallhlíf yfir Jezero-gígnum um tíma. Þá mun vélmennið nota myndavélar og annarskonar skynjara til að finna bestan lendingarstað.

Í kjölfar þess mun vélmennið losna frá geimfarinu og ferðast til yfirborðs Mars með sérstöku lendingarfari.

Hér að neðan má sjá tvö myndbönd um lendingu Perseverance. Það fyrra er tölvuteiknað og sýnir lendinguna. Í hinu síðara er rætt við nokkra af sérfræðingum NASA og farið nánar út í lendinguna sjálfa og tæknina sem notuð er.


Tengdar fréttir

Ætla að lenda á Mars í kvöld

Þrautseigja, nýjasti Mars-jeppi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, á að lenda á Mars stuttu fyrir klukkan níu í kvöld. Hálft ár er frá því jeppanum var skotið á loft.

Öngþveiti á sporbraut um Mars

Ákveðið öngþveiti verður á sporbraut um Mars í næstu viku þegar þrjú ný geimför hafa náð sporbraut um plánetuna. Kínverskt geimfar náði á braut um Mars í gær en þar var fyrir geimfar frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×