Grótta er nýliði í Olís-deildinni og hinn 28 ára gamli Arnar Daði að þreyta frumraun sína sem þjálfari í efstu deild. Liðið tapaði fyrir hinum nýliðunum, Þór, í algjörum lykilleik á Akureyri á sunnudaginn en svaraði því með 30-27 sigri á Fram í kvöld, sem kom liðinu á ný í þriggja stiga fjarlægð frá Þór í fallbaráttunni.
Fyrir fólk sem kann að lifa sig inn í íþróttir er því ekki að undra að það hafi glatt þjálfarann unga mikið að sjá frammistöðu sinna manna í kvöld, eftir að hann gagnrýndi lið sitt umbúðalaust eftir tapið á Akureyri. Geðshræringin var mikil:
„Maður lifir og deyr fyrir þetta sport. Þó að það sé ekkert að því að tapa einum leik á móti Þór þá var þetta mikið áfall fyrir okkur, ég get alveg viðurkennt það. En hvernig strákarnir svöruðu þessu og hafa svarað mörgum orustum í vetur… þetta er ólýsanlegt,“ segir Arnar Daði.
Skulduðum Stebba þennan sigur
„Þetta er búin að vera erfið vika, en svarið hjá strákunum var óaðfinnanlegt. Þó að við fáum á okkur 27 mörk þá var varnarleikurinn frábær – Stebbi (Stefán Huldar Stefánsson) með 22 varin skot í markinu. Miðað við hans frammistöðu í vetur þá skulduðum við honum þennan sigur.
Við áttum svör við nánast öllu sóknarlega, nema þá helst undir lokin þegar menn urðu eitthvað stressaðir. Við hljótum að læra af því. Við höfum verið í spennutrylli leik eftir leik í vetur, og loksins unnum við þá baráttu,“ segir Arnar Daði.
Staðan var 15-10, Fram í vil, eftir tuttugu mínútna leik en það sló Gróttu ekki út af laginu.
„Nei, sem betur fer ekki. Það hefði auðvitað alveg getað gerst. Við fórum í 7 á 6 í sóknarleiknum sem gekk fullkomlega upp. Við vorum búnir að æfa það mikið núna. Þó að við höfum notað 7 á 6 talsvert í leikjum þá höfum við ekki lagt mikið upp með það á æfingum, en það var meðvituð ákvörðun að nota þetta í þessum leik. Svo var Gunni Dan skiljanlega sprunginn í seinni hálfleik, eftir alla þessa baráttu varnarlega og sóknarlega, svo við þurftum að fara úr því um miðbik seinni hálfleiks en þá stigu menn bara upp,“ segir Arnar Daði.