Erlent

Kínverjar viðurkenna mannfall í Himalæjafjölum í sumar

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá fundi indverskra og kínverskra hermanna í Himalæjafjöllum þann 10. febrúar. Ríkin féllust nýverið á að draga úr spennu á svæðinu.
Frá fundi indverskra og kínverskra hermanna í Himalæjafjöllum þann 10. febrúar. Ríkin féllust nýverið á að draga úr spennu á svæðinu. AP/Her Indlands

Ráðamenn í Kína hafa viðurkennt að fjórir hermenn ríkisins hafi dáið í átökum við indverska hermenn í Himalæjafjöllum í fyrra. Þetta er í fyrsta sinn sem Kínverjar viðurkenna mannfall í mannskæðustu átökum ríkjanna í 45 ár.

Strax í kjölfar átakanna á landamærum ríkjanna í sumar tilkynntu Indverjar að tuttugu hermenn þeirra hefðu fallið og sökuðu þeir Kínverja um beita frumstæðum en hættulegum bareflum.

Meðal annars sögðu þeir kínverska hermenn hafa beitt naglakylfum.

Þetta var í fyrsta sinn í 45 ár sem mannfall varð á landamærunum og sökuðu ráðamenn ríkjanna hermenn hins ríkisins um að hafa farið fyrst yfir landamærin í hinu umdeilda Ladakhhéraði Í Kasmír.

Sjá einnig: Sakar Kínverja um að nota frumstæð barefli í landamæradeilu

Talið var að kínverskir hermenn hefðu einnig fallið og sögðust Indverjar hafa hlerað skilaboð um að rúmlega fjörutíu hermenn hefðu fallið eða særst. AP fréttaveitan hefur eftir indverskum embættismanni að indverjar telji nú að minnst fjórtán kínverskir hermenn hefðu særst og átta þeirra dáið.

Einn ríkismiðla Kína sagði frá því í morgun að fjórir hermenn sem hefðu fallið hefðu verið heiðraðir og að ofursti sem leiddi þá og hafi særst alvarlega hafi fengið verðlaun fyrir að verja landamæri ríkisins.

Frá því í sumar hafa bæði ríkin sent tugi þúsunda hermanna að landamærunum og komið þar fyrir vopnum og öðrum búnaði. Samband ríkjanna hefur boðið verulega hnekki samhliða deilunum.

Til stríðs kom á milli Indlands og Kína árið 1962 og unnu Kínverjar það með afgerandi hætti. Síðan þá hafa landamæri ríkjanna í raun ekki verið skilgreind og hefur þess í stað verið farið eftir því hvaða ríki stýrir hvaða svæði.

Nýverið komust ríkin þó að samkomulagi um að draga hermenn af svæðinu og breikka bilið milli fylkinga, er svo má að orði komast. Frekari viðræður milli ráðamanna ríkjanna mun fara fram um helgina, samkvæmt frétt Times of India.

Svæðið sem þessi tvö fjölmennustu ríki heims deila um er í Karakoram fjöllunum og nánar tiltekið við Pangongvatn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×