„Ég hef setið í sveitarstjórn Skaftárhrepps í alls 10 ár í vor og hef verið varaþingmaður Vinstri grænna í Suðurkjördæmi á líðandi kjörtímabili. Mín helstu áherslumál í stjórnmálum og lífinu eru umhverfismál og virðing fyrir náttúrunni, jafnrétti og mannréttindi hvers konar og íslenskur landbúnaður,” segir Heiða.
Hún er fædd árið 1978 og tók við búi á Ljótarstöðum að loknu stúdentsprófi og búfræðinámi árið 2001. Hún hefur síðan starfað sem sauðfjárbóndi og unnið við rúning og fósturtalningu í sauðfé víða um land. Þá hefur hún verið varaþingmaður fyrir Vinstri græna í kjördæminu á yfirstandandi kjörtímabili.
