Fótbolti

Sú norska stýrði enska landsliðinu til stórsigurs í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hege Riise þjálfar enska landsliðið fram á haust en fær ekki að stýra því á EM á heimavelli á næsta ári.
Hege Riise þjálfar enska landsliðið fram á haust en fær ekki að stýra því á EM á heimavelli á næsta ári. Getty/Lynne Cameron

Enska kvennalandsliðið í knattspyrnu byrjar vel undir stjórn hinnar norsku Hege Riise en liðið vann 6-0 sigur á Norður Írlandi í dag.

Leikurinn á móti Norður Írlandi var fyrsti leikur ensku stelpnanna síðan að það urðu óvænt þjálfaraskipti hjá liðinu.

Hege Riise tók tímabundið við enska landsliðinu þegar Phil Neville hætti óvænt með liðið í janúar og tók við Inter Miami í Bandaríkjunum.

Hin hollenska Sarina Wiegman er framtíðarþjálfari enska liðsins en tekur ekki við fyrr en í september.

Ellen White, sem spilar með Manchester City, skoraði þrennu fyrir enska liðið í dag en hin mörkin skoruðu þær Lucy Bronze, Rachel Daly og Ella Toone en síðasta markið kom úr víti.

Hege Riise talaði um það fyrir leikinn að ætla að efla sóknarleik liðsins og það er ekki hægt að sjá annað en að það hafi tekist.

Jill Scott lék sinn 150. landsleik í dag og fékk að bera fyrirliðabandið í leiknum. Hún átti stoðsendingu á White í leiknum. Steph Houghton er fyrirliði liðsins og Jordan Nobbs er varafyrirliði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×