Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í dag að fjöldamörk samkomubanns yrðu hækkuð úr 20 í 50 á morgun. Þá mega allt að 200 vera viðstaddir hina ýmsu viðburði með eins metra nándarmörkum, að uppfylltum skilyrðum. Leyfilegur hámarksfjöldi á veitingastöðum verður 50 manns og afgreiðslutími lengdur um klukkutíma, eða til klukkan 23.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ræddi tilslakanirnar í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hann sagði að talsvert hefði verið kallað eftir því að rýmkað yrði til fyrir sviðslistum. Tilslakanirnar tækju helst til atvinnustarfsemi en stjórnvöld væru „íhaldssamari“ í garð partístands.
„Þetta er náttúrulega atvinnustarfsemi sem við þurfum að hugsa til, frekar heldur en einhvers þar sem fólk er að gera sér glaðan dag. Við þurfum aðeins að halda í með það, því við vitum hvernig þriðja bylgjan byrjaði. Hún byrjaði akkúrat við slíkar aðstæður, á krám, í veislum og partíum þar sem fólk passaði sig ekki nóg.“
Ekkert á móti áfengi, þannig séð
Með nýju reglugerðinni verður heimilt að hafa hlé á viðburðum, til dæmis í leikhúsi og í bíó, en ekki verður þó heimilt að selja áfengi. Þórólfur kvaðst hafa mestar áhyggjur af því að fólk gerði mistök í sóttvörnum þegar áfengi er haft um hönd.
„Ég hef ekkert á móti áfengi þannig séð en ég held að það sé nokkuð ljóst, og við höfum séð það í gegnum allan faraldurinn, að þar sem áfengi er haft um hönd þar er mesta hættan á smiti og þar hafa mestu smitin verið oft og tíðum. Og ég held að það sé nokkuð ljóst, og það þarf ekki neinn snilling til að sjá það fyrir sér, að menn eru ekkert að passa sig voða mikið þar sem áfengi er haft um hönd.“
Þá sýndist Þórólfi að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði farið eftir tillögum hans í grundvallaratriðum.
„Það er þannig að þegar ég kem með mínar tillögur er ekki endilega víst að það sé svo auðvelt að útfæra þær í ljósi annarra reglna og reglugerða. Þannig að auðvitað getur alltaf verið einhver blæbrigðamunur á því og maður er ekkert að kippa sér upp við það,“ sagði Þórólfur.