Erlent

Her­inn kref­ur for­sæt­is­ráð­herr­a Armen­í­u um af­sögn

Samúel Karl Ólason skrifar
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra, með hópi hermanna, áður en þeir voru sendir til víglínanna í fyrra.his resignation.
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra, með hópi hermanna, áður en þeir voru sendir til víglínanna í fyrra.his resignation. EPA/TIGRAN MEHRABYAN

Forsvarsmenn hers Armeníu hafa krafist þess að Nikol Pashinyan, forsætisráðherra ríkisins, og ríkisstjórn hans láti af völdum. Pashinyan segist líta á kröfuna sem tilraun til valdaráns og hvetur hann stuðningsmenn sína til að mótmæla á götum úti.

Pashinyan hefur beðið lögreglu landsins um að standa vörð um opinberar byggingar og hefur hann einnig rekið yfirmann herafla Armeníu. Forseti landsins hefur þó ekki skrifað undir þá skipun enn, samkvæmt frétt AFP fréttaveitunnar.

Onik Gasparyan, yfirmaður herafla Armeníu, sendi bréf til forsætisráðherrans, og þar sem afsagnar hans er krafist. Undir bréfið skrifuðu fjölmargir aðrir yfirmenn í hernum.

Pashinyan hefur staðið frammi fyrir miklum mótmælum og áköllum um að hann segi af sér í kjölfar átaka Armeníu og Aserbaídsjan um Nagorno-Karabakh hérað í fyrra. Það voru sex vikna átök sem Armenar töpuðu með afgerandi hætti.

Sjá einnig: Forsætisráðherra Armena úthrópaður sem svikari

Það tilheyrði formlega Aserbaídsjan en því hafði þó í raun verið stjórnað af Armenunum sem búa þar. Eftir átökin samþykktu Armenar að láta héraðið alfarið af höndum auk annarra landsvæða.

Fyrir vendingar dagsins hafði Pashinyan vikið varaformanni herforingjaráðs Armeníu úr starfi. Sá hafði gagnrýnt Pashinyan fyrir það hvernig hann hélt á spöðunum í átökunum í fyrra og sagði ríkisstjórn hans ekki hafa tekið góðar ákvarðanir.


Tengdar fréttir

Armenar og Aserar skiptast á föngum

Sex vikum eftir að friðarsamkomulag náðist eftir vopnuð átök Armena og Asera um héraðið Nargorno-Karabakh hafa ríkin nú skipst á föngum.

Brenna heimili sín og flytja grafir

Þorpsbúar í Nagorno-Karabakh kveiktu í húsunum sínum í gær og í dag en um helgina verður stjórn svæðisins sem um ræðir afhent Aserum eftir að hafa verið á höndum Armena í áratugi. Íbúar Kalbajar flýja nú svæðið eftir að deiluaðilar gerðu vopnahlé og ljóst var að Aserar tækju við stjórn á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×