Innlent

Segir smit gær­dagsins ekkert til að hafa á­hyggjur af

Vésteinn Örn Pétursson og Birgir Olgeirsson skrifa
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

„Þetta er bara afleitt smit frá landamærasmiti. Einstaklingur sem kom hingað fyrir vikutíma og var að ljúka við sína sóttkví. Meðan við erum með fólk í sóttkví þá getum við alltaf búist við því að greina einhverja áfram,“ segir Þórólfur Guðnason um þær fréttir að einn hafi greinst með kórónuveiruna innanlands í gær.

Um er að ræða fyrsta smitið sem greinist innanlands síðan 18. febrúar og var viðkomandi í sóttkví við greiningu.

Þórólfur segist telja að um sjö manns hafi verið útsettir fyrir smiti í tengslum við landamærasmitið. Öll hafi farið í sóttkví og eitt hafi greinst í lok sóttkvíar, það er smitið sem greindist í gær.

Þórólfur segist ekki telja að smitið sem greindist í gær sé eitthvað til að hafa áhyggjur af. Um er að ræða aðeins þriðja innanlandssmitið á síðustu fimmtán dögum. Þá hefur enginn verið utan sóttkvíar við greiningu síðan 1. febrúar síðastliðinn.

„Alls ekki. Ef það færi að greinast fólk utan sóttkvíar væri það áhyggjuefni, en meðan við erum með fólk sem er enn þá í sóttkví, hefur verið útsett og er á þessum tíma sem það getur veikst, þá getum við alltaf búist við að einhver greinist þar. Það er ekki fyrr en við verðum með engan í sóttkví, þá erum við með hreint borð,“ segir Þórólfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×