Þurfti stuðning 2/3 greiddra atkvæði til þess að breytingarnar færu í gegn en svo var ekki. Efsta deild karla verður því með óbreyttu sniði tímabilið 2022.
Tillaga Fram fékk 71 já af þeim 122 sem kusu, 58,2 prósent og var því felld. Tillaga stjórnar KSÍ fékk 68 já frá þeim 124 sem kusu, 54,88 prósent fylgi og var því felld.
Í stuttu máli snýst tillaga stjórnar KSÍ, sem byggir á vinnu starfshóps, um að hafa áfram 12 lið í deildinni en skipta henni í tvennt eftir hinar venjulegu 22 umferðir.
Hvert lið fengi þá fimm aukaleiki því efstu sex liðin myndu mætast innbyrðis í úrslitakeppni og neðstu sex liðin sömuleiðis.
Fram setti þá tillögu fram á borðið að fjórtán lið myndu leika í efstu deild karla. Leikin yrði tvöföld umferð.
Fylkir og ÍA drógu sínar tillögur til baka. Fylkismenn vildu fækka í tíu lið og spila þrefalda umferð en Skagamenn vildu halda liðunum í tólf og spila þess í stað þrjár umferðir.