Erlent

Blóðug átök í Mjanmar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Mótmælendur flytja slasaðan félaga sinn á sjúkrahús sem særðist í skothríð lögreglu og hersins.
Mótmælendur flytja slasaðan félaga sinn á sjúkrahús sem særðist í skothríð lögreglu og hersins. Getty/Kaung Zaw Hein

Að minnsta kosti átján dóu í aðgerðum lögreglu í Mjanmar gegn mótmælendum í gær en átökin eru þau blóðugustu í landinu hingað til eftir að herinn tók þar öll völd á dögunum.

Mótmælt var í fjölda borga og dreifðist mannfallið á þær, dauðsföll hafa verið tilkynnt í Yangon, Dawei og Mandalay en lögregla hefur beitt skotvopnum og táragasi gegn mótmælendum.

Yfirvöld höfðu varað mótmælendur við því að harðar yrði tekið á andófi um helgina og á laugardag var látið til skarar skríða eftir margra vikna mótmæli, sem að mestu leyti hafa verið friðsöm, með nokkrum undantekningum þó.

Auk þeirra átján sem létu lífið eru að minnsta kosti þrjátíu særð að því er mannréttindaskrifstofa Sameinuðu þjóðanna segir, en erfiðlega gengur að fá áreiðanlegar fréttir frá landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×